Vel nestuð þar til mötuneyti opnar

Mötuneytið opnar í Snælandsskóla 11. september.
Mötuneytið opnar í Snælandsskóla 11. september. mbl.is/Árni Torfason

Nemendur í Snælandsskóla í Kópavogi þurfa að mæta með nesti í skólann fyrir allan daginn fram til 11. september þegar mötuneytið opnar og nýr matráður tekur til starfa. „Við hljótum að lifa þessa örfáu daga af og taka með nesti. Foreldrar hafa almennt tekið vel í þetta og sýnt þessu skilning,“ segir Magnea Einarsdóttir, skólastjóri Snælandsskóla.

Ástæðan er sú að nýr matráður tekur til starfa um mánaðamótin en hann vinnur nú uppsagnarfrestinn sinn. Hann mun elda mat fyrir nemendur og starfsfólk frá grunni en síðustu ár hefur nemendum staðið til boða að kaupa aðsendan mat sem hefur verið hitaður upp á staðnum.

Vilja elda frá grunni

„Samningurinn við Skólamat var að renna út og því ákváðum við að nýta tækifærið og prófa að bjóða upp á mat sem væri eldaður hér frá grunni því við erum með aðstöðuna til þess,“ segir Magnea. Hún tekur fram að ákveðið hafi verið að bjóða ekki upp á heitan mat frá öðru fyrirtæki á meðan heldur bíða frekar eftir að mötuneytið opnaði.  

Nemendur geta þó mætt með einnota umbúðir í skólann líkt og utan af jógúrti og öðru slíku í nesti. Alla jafna er slíkt ekki leyfilegt í skólanum því reynt er að draga úr sorpi í skólanum.  

Í Snælandsskóla eru 446 nemendur og þeim hefur fjölgað aðeins milli ára og starfsmenn skólans eru um 60 talsins.

Allir kennarar með réttindi

Allar kennarastöður við skólann eru fullmannaðar og eru allir grunnskólakennarar með réttindi og engir leiðbeinendur sinna kennslu, að sögn Magneu. Sem stendur er ein laus staða stuðningsfulltrúa og er skólastjórinn vongóður um að í hana verði ráðið fljótlega.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert