Hafnað að rannsaka drápið frekar

Mennirnir greiddu sekt þegar þeir eltu lamb uppi og drápu …
Mennirnir greiddu sekt þegar þeir eltu lamb uppi og drápu það. mbl.is/Árni Sæberg

Máli þar sem ferðamenn voru kærðir fyrir dráp á lambi í júlí er lokið. Hinum seku var gert að greiða 120.000 krónur í sekt fyrir brot á 257. grein almennra hegningarlaga. Lögreglustjórinn á Austurlandi telur að með þessu hafi málinu lokið endanlega.

Mat­væla­stofn­un kærði mennina fyrir brot á lögum um velferð dýra. Lögreglunni á Austurlandi barst bréf frá MAST þess efnis 21. júlí en atvikið átti sér stað 2. júlí. 

Ábú­end­ur á Núpi í Beruf­irði gómuðu þá níu full­orðna er­lenda ferðamenn, þar sem þeir hlupu lambið uppi. 

Áður en menn­irn­ir náðu lamb­inu eltu þeir það um kíló­metra leið. Að sögn Hreins Péturssonar, bónda á Ósi, var lambið orðið þreytt, ruglað og ör­vænt­ing­ar­fullt og lík­lega búið að gef­ast upp. Menn­irn­ir króuðu lambið af í fjör­unni og barst þá leik­ur­inn út í sjó. Þar hafði það enga und­an­komu­leið og var hand­samað. Lambið, sem var í eigu Hreins, var því næst skorið á háls.

„Þar sem málinu var endanlega lokið með greiðslu sektar, þegar kæra Matvælastofnunar barst, var því hafnað að taka málið til frekari rannsóknar,“ segir í svari Helga Jenssonar, lögreglufulltrúa á Austurlandi, við fyrirspurn mbl.is.

Við það er bætt að lögreglan á Austurlandi leggur almennt mikla áherslu á það að reyna að klára mál er varða erlenda aðila á staðnum og áður en kærðu fara úr landi. „Enda mjög erfitt og kostnaðarsamt að rannsaka og saksækja mál eftir að kærðir aðilar eru farnir til síns heima.

Sektargreiðsla mannanna var einungis fyr­ir brot á eign­ar­spjöll­um, ekki fyr­ir dýr­aníð, en sam­kvæmt 6. mgr. 45. gr. laga um vel­ferð dýra nr. 55/​2013 sæta brot gegn þeim lög­um aðeins rann­sókn lög­reglu að und­an­geng­inni kæru Mat­væla­stofn­un­ar.

mbl.is