Lundapysjan lenti í réttum höndum

Hún lenti í réttum höndum lundapysjan sem villtist inn Skúlagötuna í gærkvöldi. Það var Vestmannaeyingurinn og björgunarsveitarmaðurinn Ármann Ragnar Ægisson sem fann hana og geymdi í baðkarinu hjá sér yfir nóttina áður en hægt var að sleppa henni. 

Ármann, sem hefur vitanlega mikla reynslu af því að meðhöndla lundapysjur eins og flestir aðrir Vestmannaeyingar, segir mikilvægt að sleppa þeim ekki strax í sjóinn því hættan sé að þær leiti aftur upp á land þar sem þær sæki í ljósin.

Það var svo Paulina Pierzak, kærasta Ármanns, sem sleppti pysjunni við Sólfarið í morgun og það var ekki annað að sjá en að hún væri frelsinu fegin. Ármann segir jafnframt að það sé ekki sniðugt að reyna að halda lundana sem gæludýr því reynslan sýni að þeir lifi það fæstir af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert