Dýrasta bílastæði í heimi?

„Þessi upphæð fyrir bílastæði í 15 mínútna stoppi er allt of há. Ég myndi segja að þetta væri eitt dýrasta bílastæði heims,“ segir Englendingurinn Katie, sem er á ferðalagi um Ísland með fjölskyldu sína, um gjaldið sem tekið er af gestum á bílastæðinu við Seljalandsfoss þar sem kostar 700 kr. að leggja bíl óháð því hversu lengi fólk dvelur þar eða hvort það nýtir sér salernisaðstöðuna á svæðinu.

Upphæðin fer reyndar fyrir brjóstið á flestum þeim ferðamönnum sem mbl.is tók þar tali fyrr í vikunni. Einhverjum finnst sjálfsagt að það sé gjaldfrjálst að leggja við fossinn á meðan aðrir telja að 250-400 krónur væri eðlilegt gjald. 

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir að gjaldið hafi verið miðað út frá því sem tekið er við Þingvelli þar sem 500 krónur kostar að leggja en 200 krónur eru teknar fyrir afnot af salernisaðstöðunni. Upphæðin var ákveðin í samráði við landeigendur á svæðinu og ekki hefur komið til tals að endurskoða hana að sögn Ísólfs Gylfa.

Fjallað hefur verið um að bílar leggi mikið á veginum fyrir ofan bílastæðið sem var það sem Katie frá Englandi gerði. Hennar skýring var að það hafi verið til að komast hjá gjaldinu en þó er ljóst að mun fleiri bílar eru á svæðinu en bílastæðið tekur og því byrja margir að leggja á veginum fyrir ofan þar sem oft verður þröngt á þingi.

mbl.is kannaði aðstæður við Seljalandsfoss í Rjómablíðu fyrr í vikunni sem má sjá í myndskeiðinu að ofan.

Lögreglan var á svæðinu og beindi þeim tilmælum til fólks að ekki væri heilmilt að leggja við veginn enda sé þar heil óbrotin lína í vegkantinum. Að sögn lögreglumanna hafa einstaka óhöpp orðið vegna ástandsins sem þarna myndast en í öllum tilfellum minni háttar núningur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert