„Ég get ekki búið við þetta“

„Þetta snýst um skerðingu lífsgæða,“ segir Elva Sif Gretarsdóttir sem …
„Þetta snýst um skerðingu lífsgæða,“ segir Elva Sif Gretarsdóttir sem býr í nágrenni kísilvers United Silicon. Hún segist hika við að setja unga dóttur sína, Bríeti Erlu, út í vagn að sofa. mbl.is/Rax

Fólk finnur særindi í hálsi, verður rauðeygt og tárast. Það finnur fyrir þurrki í nefi og mæðist fljótt. Fólk lokar gluggunum, strýkur ryk af bílum sínum á morgnana og foreldrar hika við setja börnin sín út að leika sér eða út í vagn að sofa. Þeir sleppa því jafnvel. „Það er náttúrlega eitthvað ekki í lagi þarna,“ segir Rúnar Lúðvíksson, verslunarmaður í Kosti í Reykjanesbæ, um kísilver United Silicon í Helguvík. „Það á að loka þessari verksmiðju og fjarlægja hana.“

Komnir með upp í kok

Rúnar og sonur hans Gunnar Felix eru í hópi fjölmargra íbúa í Reykjanesbæ sem eru búnir að fá sig fullsadda af umhverfisáhrifum verksmiðjunnar. Íbúarnir eru búnir að fá upp í kok, í bókstaflegri merkingu. Það kom bersýnilega í ljós á fjölmennum íbúafundi í Stapa í gær. Hver íbúinn á fætur öðrum stóð upp og mótmælti veru kísilversins í Helguvík. 

mbl.is fór til Reykjanesbæjar í gær og ræddi við íbúa um ástandið.

Fólk getur ekki sofið með opinn glugga, ekki grillað úti í garði eða málað þakið á góðviðrisdögum. Slík er ólyktin. Lífsgæði þess eru verulega skert og dæmi eru um að fólk sem jafnvel er alið upp í bænum hugsi sér í fyrsta sinn á ævinni til hreyfings. Það er orðið langþreytt á því að á það sé ekki hlustað og kvartanir þess ekki teknar alvarlega. „Það er látið eins og við séum bara kjánar og að þetta sé einhver múgæsingur,“ segir Elva Sif Gretarsdóttir, fjögurra barna móðir sem býr í námunda við kísilverið. „En það er einfaldlega ekki þannig. Þetta er eins og þú sért með andlitið ofan í arineldi og reykurinn fari beint upp í nefið á þér. Það er þannig sem ég myndi lýsa þessu.“

„Í alvöru talað, þetta var hræðilegt,“ segir Gunnar Felix Rúnarsson …
„Í alvöru talað, þetta var hræðilegt,“ segir Gunnar Felix Rúnarsson um mengunina frá kísilverinu síðustu daga. „Þetta er óþverri,“ segir Rúnar Lúðvíksson faðir hans. mbl.is/RAX

Allt frá því að United Silicon hóf starfsemi í Helguvík í nóvember á síðasta ári hafa íbúar fundið óþef og fyrir óþægindum. Kvartanir vegna þessa til Umhverfisstofnunar skipta hundruðum og hefur stækjan sem leggst yfir Reykjanesbæ verið þvílík á síðustu dögum að „ég furða mig á því að fólk hafi ekki verið varað við því að koma í bæinn,“ segir Gunnar Felix. „Í alvöru talað, þetta var hræðilegt.“

Fjölmörg líkamleg einkenni

Margir íbúar kvarta ekki aðeins undan lyktinni heldur líkamlegum einkennum sem þeir hafa fundið fyrir og beintengja við starfsemi verksmiðjunnar. Gunnar Felix hefur fundið fyrir þurrki í hálsi og nefi og Elva fyrir sviða í hálsi. Líðan Eyglóar Önnu Tómasdóttur hjúkrunarfræðings er enn verri. „Ég hef verið með astma síðan ég var tíu ára en hef aldrei verið á jafnmörgum lyfjum og núna.“ Hún hugsar vel um heilsu sína, stundar líkamsrækt og sund, en er nú stöðugt með hæsi og móð. Synir hennar fjórir hafa einnig allir fundið fyrir einkennum.

Óvissan um hvað það er sem veldur lyktinni og hvort og þá hvaða áhrif hún hafi á heilsu er verst að mati viðmælenda Morgunblaðsins. Umhverfisstofnun væntir nú niðurstaðna sértækra mælinga sem gerðar hafa verið að undanförnu. En á meðan bíða íbúarnir milli vonar og ótta.

„Þetta er hægdrepandi, eins og þeir segja,“ segir Rúnar þar sem hann stendur við afgreiðsluborðið í hverfisbúðinni Kosti og hlær þó að honum sé langt frá því skemmt yfir því sem er að gerast í bænum. „Þegar fólk getur ekki verið úti við heimili sitt á góðviðrisdögum þá er þetta einfaldlega ekki hægt,“ segir hann í alvarlegri tón.

Kemur í bylgjum

Lyktarmengunin nær víða og kemur í bylgjum. Verst er hún í hverfunum sem næst eru kísilverinu en fólk sem býr á Ásbrú segist einnig hafa fundið lyktina. Íbúar í Reykjanesbæ eru ýmsu vanir þegar komið er að lyktarmengun. Óþefur hefur í gegnum tíðina reglulega lagst yfir bæinn frá fiskimjölsverksmiðjum og annarri framleiðslu. Munurinn er hins vegar sá að þeirri lykt fylgdu ekki líkamleg einkenni eins og nú. „Þetta er bara óþverri,“ segir Rúnar.

Íbúar hafa meðal annars gagnrýnt að trjákurl, sem notað er …
Íbúar hafa meðal annars gagnrýnt að trjákurl, sem notað er til að framleiðslunnar, sé berskjaldað fyrir veðri og vindum við verksmiðju United Silicon. mbl.is/RAX

Íbúarnir eru einnig ósáttir við umgengnina við verksmiðjuna. Þar sé trjákurl undir berum himni, óvarið fyrir veðri og vindum. Kolabingir eru berskjaldaðir, en hvort tveggja er notað til að kynda ofn verksmiðjunnar. Hvorki frágangurinn né mengun frá framleiðslunni sé eins og íbúarnir hafi búist við. „Okkur var sagt að það yrði engin mengun, hvorki lykt né annað,“ segir Elva. Gunnar talar á svipuðum nótum. „Þetta er ekki eins og það var kynnt fyrir okkur,“ segir Gunnar.

Viðmælendur mbl.is eru sammála um að verkefnið hafi ekki verið nægilega vel kynnt fyrir íbúum á sínum tíma. Ekkert standist sem talað var um í upphafi. „Ég man ekki eftir að hafa heyrt að það ætti að brenna tonnum af sagi og kolum hér. Það var líklega einhvers staðar neðst í bókinni,“ segir Gunnar Felix. Þá segir hann verksmiðjuna of nálægt bænum. „Það voru fyrstu mistökin. Og það verður aldrei friður um hana.“

Fleiri kísilver á leiðinni

Þá eru margir uggandi yfir framhaldinu. „Og þetta er aðeins einn ofn,“ bendir Gunnar á. Stefnt er að því að fjölga ofnum United Silicon og svo mun kísilver Thorsil bætast við í Helguvík, gangi áætlanir eftir. „Maður er orðinn smeykur,“ segir Elva. „Það er búið að kveikja á einum ofni og það eiga að koma margir til viðbótar. Fólk er bara hrætt. Hvar endar þetta?“

Eftir að verksmiðjan hóf starfsemi hóf fámennur hópur fólks að finna fyrir lyktarmenguninni og líkamlegum einkennum. Á hann var ekki mikið hlustað og voru þeir sem kvörtuðu jafnvel sagðir „klikkaðir“ eins og Gunnar orðar það. „En nú er fólk að átta sig betur á þessu, þetta er að fara víðar og fleiri að finna fyrir þessu.“

Fleiri viðmælendur Morgunblaðsins taka í sama streng: Flestir séu orðnir á því að róttækra aðgerða sé þörf. Við þetta verði ekki búið. „Þetta er svakalegt inngrip,“ segir Gunnar. „Það er í raun ótrúlegt hvað þetta hefur haft mikil áhrif á mann að mörgu leyti. Að geta ekki sofið með opinn glugga og geta ekki verið úti heima hjá sér er auðvitað ekki hægt.“

Íbúafundurinn var auglýstur á áberandi pappasjöldum í Reykjanesbæ. Setið var …
Íbúafundurinn var auglýstur á áberandi pappasjöldum í Reykjanesbæ. Setið var í hverju sæti og einhverjir þurftu að standa í Stapanum í gærkvöldi. mbl.is/RAX

Allir gluggar harðlokaðir

„Þetta hefur verið mjög erfitt í sumar og síðasti mánuður hefur verið alveg svakalegur,“ segir Elva Sif, sem býr í Heiðarenda, skammt frá kísilverinu, ásamt þremur dætrum sínum og eiginmanninum, Victori Rodriguez. Suma daga hefur hún haft alla glugga harðlokaða og ekki viljað setja nokkurra mánaða gamla dóttur sína, Bríeti Erlu, út í vagn að sofa. Elva segir að það geti vel verið að þeirri litlu stafi engin hætta af útiveru í menguninni en á meðan óvissan er mikil sé hún hikandi við að gera það. „Það hafa komið dagar sem ég hef ekki þorað að setja hana út.“

Íbúar segja að ekki hafi verið hlustað nægilega mikið á þá. „Ég er orðin reið og sár,“ segir hún um viðbrögð ráðamanna og Umhverfisstofnunar. „Það er látið eins og við séum að ímynda okkur þetta. Það er verið að efast um að lyktin komi [frá verksmiðjunni]. En við vitum að þetta er lykt sem fór að koma þegar starfsemi hennar byrjaði.“

Elva bendir á að fyrirtækinu hafi verið gefin óteljandi tækifæri til að kippa öllu í lag. „En við fáum aldrei séns,“ segir hún. „Það verður að fara að hlusta á okkur íbúana hér í bænum. Við erum ekki að þessu bara af því að okkur finnst þetta ljótt. Við erum smeyk og finnst þetta lífsgæðaskerðing. Og við erum reið.“

Losnar ekki við einkennin

Eygló Anna segist ekki losna við einkennin sem hún fór að finna fyrir eftir að verksmiðjan var gangsett. Hún segir það „engan vafa“ að einkennin tengist starfsemi kísilversins.

„Læknar hafa alltaf sagt mér að ég sé með góð …
„Læknar hafa alltaf sagt mér að ég sé með góð lungu en það er að versna og ég finn verulega fyrir því,“ segir hjúkrunarfræðingurinn Eygló Anna Tómasdóttir. mbl.is/RAX

Þegar spurt er hvað sé til ráða, hvort gefa eigi United Silicon enn eitt tækifærið til að bæta sig, eru flestir viðmælendur á einu máli að nú sé nóg komið. „Það eina sem er til ráða er að loka þessu,“ segir Eygló. „Þetta er bara einn ofn. Það eiga fleiri eftir að koma. Stjórnvöldum í landinu er ekki annt um okkur hér. Við erum að berjast og við heyrum ekkert frá neinum.“

Gunnar og Eygló eru uppalin í Reykjanesbæ. Þau segjast bæði íhuga að flytja. „Ég get ekki búið við þetta,“ segir Eygló. „Og ég býð ekki börnunum upp á þetta. Það er ekki til umræðu. Mér finnst ömurlegt að hugsa út í þetta en ég set heilsuna ofar öllu.“

Gunnar Felix er í sömu hugleiðingum. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég gæti hugsað mér að flytja úr bænum. Og ég geri það ef þetta heldur áfram svona. Mér þykir afar vænt um þennan bæ. En ég ætla ekki að vera hér í þessu ástandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert