Ein flottasta sánan í Helsinki í eigu Íslendings

Antero segir hafa verið gaman að hitta óvænt á hóp …
Antero segir hafa verið gaman að hitta óvænt á hóp 24 íslenskra arkitekta sem höfðu gert sér ferð að skoða sánuna. Ljósmynd/Löyly

Ein flottasta sánan í Helsinki og þótt víðar væri leitað er í eigu þingmannsins Antero Vartia, sem er hálfur Íslendingur. Hann segir Íslendinga stundum reka þar inn nefið og hefur fengið fyrirspurnir um hvort ekki væri góð hugmynd að opna sambærilegt gufubað á Íslandi.

„Þú getur alveg talað við mig á íslensku, ég er bara ekki jafnduglegur að skrifa hana,“ sagði Antero á góðri íslensku þegar blaðamaður mbl.is hringdi í hann í vikunni eftir tölvupóstsamskipti. Móðir An­teros, Erna Ein­ars­dótt­ir, var flug­freyja hjá Loft­leiðum og vann síðar hjá Flug­leiðum og Icelanda­ir í Finn­landi og hann á mikinn frændgarð hér á landi og er að spá í að heimsækja Ísland næst í tengslum við Airwaves-tónlistarhátíðina. 

Antero Vartia er hálfur Íslendingur. Hann er þingmaður og rekur …
Antero Vartia er hálfur Íslendingur. Hann er þingmaður og rekur nokkur fyrirtæki, m.a. veitingastað og Löyly-sánuna. Mbl.is/Helgi Bjarnason

Antero hefur komið víða við, hann er þingmaður Græna flokksins í Finnlandi, rekur nokkur fyrirtæki, m.a. veitingastað, og lék á árum áður í sápuóperu í sjón­varpi auk þess að vera kynn­ir í sjón­varpsþætti.

Nýjasta viðbótin er Löyly-sánan sem stendur á bryggju við sjávarsíðuna skammt frá miðborg Helsinki. Hönnun hússins er allsérstæð og hefur m.a. verið lofuð í fagtímaritum arkitekta. Húsið var hannað til að vera ílangt og grannt í laginu svo það loki ekki á bryggjuna, á sama tíma og það býður upp á útsýni yfir Helsinki og sjóinn fyrir utan. Mikil ró er yfir staðnum sem er með daufa lýsingu og mismunandi útsýni opnast fyrir gestum er þeir færa sig frá einu svæði til annars, en auk sánunnar er bæði inni- og útiveitingastaður í húsinu.

Útiveitingaaðstaðan á bryggjunni nýtur vinsælda þegar veður er gott.
Útiveitingaaðstaðan á bryggjunni nýtur vinsælda þegar veður er gott. Ljósmynd/Löyly

Finnar eru þekktir fyrir fallegan arkitektúr. Ekki er síður vel þekkt hve stóran þátt sánan á í finnsku þjóðarsálinni. Þannig eru um 3,3 milljónir sána í Finnlandi þó að landsmenn séu ekki nema um 5,5 milljónir talsins. Það er heldur ekki algengt að blanda finnska arkitektúrnum og gufubaðsiðkuninni saman. 

Þrátt fyrir þetta segir Antero Helsinkibúa hafa tekið Löyly vel. „Þegar ég planaði þetta vissi ég líka að arkitektúrinn myndi ef til vill ekki falla öllum í geð, en ég hef ekki heyrt neinn tala illa um bygginguna enn þá.“

Lofað á Trip Advisor

Notendur ferðavefjarins Trip Advisor virðast heldur ekki halda vatni yfir Löyly. „Must do experience“ (reynsla sem maður má ekki missa af) skrifar einn, „staðurinn til að fara á fyrir alla sem koma til Helsinki“ skrifar annar og þegar rennt er niður listann virðast dómarnir almennt lofsamlegir.

Arinninn skapar hlýlega stemningu. Rýmisnotkun Löyly byggir á því að …
Arinninn skapar hlýlega stemningu. Rýmisnotkun Löyly byggir á því að húsið á aldrei að virka fullt af fólki. Ljósmynd/Löyly

Mælt er þó með að gestir panti tíma með nokkurra daga fyrirvara, eigi þeir þess ekki kost að hoppa inn hvenær sem er.

Löyly, sem er finnska orðið yfir gufuna sem stígur upp af steinum sánunnar, var opnað í fyrra og segir Antero hugmyndina að staðsetningunni koma frá borgaryfirvöldum í Helsinki. „Á milli 300-400.000 manns koma til Helsinki með skemmtiferðaskipi ár hvert. Þetta svæði er í uppbyggingu. Bærinn vildi höfða til ferðamanna og fékk þá hugmyndina að setja þar upp sánu,“ segir Antero en Löyly er í um 15-20 mínútna göngufjarlægð frá miðborginni.

Heiðurinn að útliti og frekari skipulagningu eiga hins vegar þeir Antero og meðeigandi hans, leikarinn Jasper Pääkkönen, en húsið var hannað af arkitektastofunni Avanto.

Á að standa í hundrað ár

Antero segist upphaflega hafa ætlað að kaupa leyfið að sánabyggingunni af Pääkkönen, en eftir nokkurra vikna samræður hafi þeir gert alveg nýja áætlun. „Við stækkuðum húsið og þetta varð töluvert dýrara,“ segir hann. Þeir hefðu vissulega getað gert álíka stóran og skemmtilegan stað fyrir minni kostnað, en þar sem þeir séu báðir þekktir einstaklingar í heimalandinu hafi þeir viljað gera þetta eins vel og þeir gátu. „Þetta hús mun standa hér í hundrað ár og þá verður maður að gera hlutina eins vel og maður getur.“

Arkitektúr Löyly-sánunnar er óneitanlega sérstæður, en þegar viðurinn í húsinu …
Arkitektúr Löyly-sánunnar er óneitanlega sérstæður, en þegar viðurinn í húsinu hefur gránað meira á húsið að minna á klettana við ströndina. Ljósmynd/Löyly

Antero rekur annan veitingastað sem stendur líka við sjávarsíðuna í um 1,5 km fjarlægð og kveðst því hafa vitað að staður á borð við Löyly væri góð viðskiptahugmynd.

„Það er fallegt útsýni hér við sjóinn og í Helsinki eru ekki margir veitingastaðir þar sem maður getur notið þess að vera við sjóinn. Það hefur samt komið mér á óvart hversu góðar móttökur sánan hefur fengið.“

Líkt og áður sagði er Antero þingmaður fyrir Græna flokkinn í Finnlandi og því skiptir það hann máli að Löyly sé umhverfisvænn staður. „Það var aðeins meiri vinna og aðeins dýrara, en sá kostnaður er fljótur að skila sér,“ segir hann. „Fólk er ánægt með að við höfum gert þetta svona og staðurinn fær mikla umfjöllun fyrir vikið og þá koma líka fleiri gestir.“  

Löyly-sánan nýtur ekki síður mikilla vinsælda hjá erlendum ferðamönnum en …
Löyly-sánan nýtur ekki síður mikilla vinsælda hjá erlendum ferðamönnum en hún gerir hjá Helsinkibúum. Ljósmynd/Löyly

Alltaf glaður að fá Íslendinga í heimsókn

Löyly-sánan nýtur ekki bara vinsælda hjá Finnum, því um helmingur þeirra gesta sem þangað koma eru ferðamenn og ferðamönnunum fer fjölgandi að hans sögn.

Íslendingar reka líka stundum inn nefið og segist Antero taka þeim fagnandi og minnist hann þess er hópur 24 íslenskra arkitekta gerði sér ferð til að skoða gufuna.“ Ég vissi ekki af komu þeirra, en hitti óvænt á þá og það var gaman að hitta þá. Ég er alltaf mjög montinn að fá Íslendinga í heimsókn og geta þá talað íslensku og sýnt þeim hvernig Finnland er og Helsinki.“

Antero hefur líka í nokkur skipti verið spurður hvort það væri ekki góð hugmynd að setja á fót Löyly-sánu á Íslandi. „Við notum við til að hita upp sánuna og brennum um 1,5 rúmmetra af viði á dag,“ segir hann. „Og ég veit ekki hvernig það myndi ganga á Íslandi.“

Það væri þó vissulega gaman að sjá Löyly-sánu rísa hér á landi, en hann kveðst ekki fara í þær framkvæmdir sjálfur. „Hafi hins vegar einhver áhuga á að taka við kyndlinum þá er ég bara ánægður ef ég get hjálpað.“

Veitingaaðstaða er bæði inni og úti.
Veitingaaðstaða er bæði inni og úti. Ljósmynd/Löyly
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert