Þurfum að vera vakandi

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Rax

„Ég vil bara fá yfirlit yfir stöðuna,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður og þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is en hún hefur óskað eftir fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í kjölfar frétta af áhuga kínverskra fjárfesta á að kaupa jörðina Neðri-Dal í Biskupstungum fyrir 1,2 milljarða króna með ferðaþjónustustarfsemi í huga. Jörðin, sem er 1.200 hektarar að stærð, liggur að Geysissvæðinu í Haukadal.

Frétt mbl.is: Kínverjar vilja kaupa jörð á milljarð

Lilja bendir á að dómsmálaráðuneytið fari með eftirlit með framkvæmd laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna og fá þurfi á hreint hvort því eftirliti sé raunverulega fylgt og almennt hvernig staða mála sé í þessum efnum. Hún bendir enn fremur á að reglugerð hafi verið afnumin á sínum tíma sem sett hafi ákveðnar takmarkanir á slíkar fjárfestingar og ástæða sé til að fá upplýsingar um það hvaða áhrif sú ákvörðun hafi haft.

Lilja bendir enn fremur á að um síðustu áramót hafi Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sett á fót starfshóp til þess að skoða mögulegar takmarkanir til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. „Ég vil fá að vita hvað hafi orðið um þann starfshóp og hvernig við séum að sinna þessum málum.“ Horfa þurfi til nágrannaríkjanna í þessum afnum.

„Þjóðir eins og Danir og Norðmenn hafa hug á að setja takmarkanir á slíkar fjárfestingar og eru að kortleggja stöðuna,“ segir Lilja. Hafa verði í huga í því sambandi að Ísland sé ekkert gríðarlega stórt land. Heildarstefnu vanti í þessu sambandi og yfirsýn þannig að Íslendingar vakni ekki einn daginn við það að erlendir fjárfestar hafi keypt stóran hlut af landinu. Þá að öllum líkindum í andstöðu við vilja meirihluta landsmanna.

Spurð um stefnu Framsóknarflokksins í þessum efnum segir Lilja að framsóknarmenn telji að það þurfi að vera einhverjar takmarkanir í þessum efnum. „Við þurfum að hafa heildarstefnu og vita hvernig við sjáum þetta fyrir okkur. Við erum aðilar að EES-samningnum sem felur í sér ákveðin réttindi og skyldur í þessum málum. En við verðum hins vegar að vera mjög vakandi gagnvart þessari þróun með heildarhagsmuni Íslands í huga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert