„Mönnum er refsað í bótakerfinu“

Fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson.
Fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson. Eggert Jóhannesson

„Þessi niðurstaða kom mér ekki mikið á óvart. Tvennt kemur til. Almennt hefur tekist að hækka laun þeirra tekjuminnstu en það er líka þekkt að skattleysismörkin hafa ekki alltaf fylgt verðlagsþróun.“ Þetta segir Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is.

Skattbyrði hefur frá árinu 1998 aukist mest hjá þeim tekjulægstu að því er fram kemur í nýrri skýrslu ASÍ. Í henni kemur fram, eins og Benedikt segir, að persónuafsláttur hafi ekki fylgt launaþróun. Þá hafi stuðningur vaxtabótakerfisins minnkað verulega. Fram kemur að barnabótakerfið sé veikt og það dragi eingöngu úr skattbyrði einstæðra foreldra og para sem hafa mjög lágar tekjur.

Í skýrslu ASÍ er bent á að skattbyrði þeirra tekjulægstu …
Í skýrslu ASÍ er bent á að skattbyrði þeirra tekjulægstu hafi aukist mest. Gylfi Arnbjörnsson er forseti ASÍ. Eggert Jóhannesson

Benedikt segir að þetta hafi legið fyrir lengi. Hann bendir á að tveimur nefndum hafi í hans tíð verið falið að skoða hvort haga mætti bótakerfinu – og skattkerfinu sjálfu – með öðrum hætti. „Þetta eru hugmyndir sem komu fyrst upp hjá AGS [Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, innsk. blm] og voru svo teknar upp á vegum samráðsvettvangs um aukna hagsæld og fela í sér að persónuafsláttur er hæstur fyrir þá sem lægstu launin hafa og fer svo stiglækkandi.“

Hvati til að afla meiri tekna

Hann segist vilja skoða hver áhrifin yrðu af þessum breytingum. Í núverandi skattkerfi leynist fátæktargildrur „þar sem fólk bætir við sig í launum en ráðstöfunartekjurnar aukast ekki neitt. Mönnum er refsað í bótakerfinu.“ Hann vill bíða niðurstöðu nefndanna, sem eiga að skila af sér í nóvember, til að sjá hvort hægt sé að komast hjá þessu.

Spurður hvort til standi að eiga við persónuafsláttinn í komandi fjárlagafrumvarpi segist Benedikt ekki eiga von á miklum breytingum. „Ef við færum skattbyrðina þá lækkar hún hjá einhverjum en hækkar hjá öðrum. Meginmarkmiðið væri í mínum huga að reyna að auka hvata fólks til að afla sér meiri tekna. Það held ég að skipti máli, sem og að reyna að forðast að vera með bótakerfi sem refsar fólki fyrir að afla sér tekna.“

Grænir skattar

Hann segir að helstu breytingarnar sem gerðar verði á skattkerfinu á næstunni verði að kolefnisgjöld og álögur á dísilolíu munu hækka. Þá hefur Benedikt sagt að hann vilji að skattaafsláttur af innflutningi á rafbílum verði látinn gilda til þriggja ára í senn, en ekki eins árs.

„En það er engin bylting boðuð á skattkerfinu núna. En ef niðurstaðan verður að þessar hugmyndir sem verið er að skoða séu skynsamlegar þá myndu viðamiklar breytingar sem þær kalla meiri undirbúning en nokkrar vikur,“ segir hann og vísar í að um miðjan næsta mánuð verði fjárlagafrumvarp næsta árs kynnt. „Þessi hugmynd heillaði mig nóg til að vilja skoða málið betur. En við verðum líka að passa að flana ekki að neinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert