Aðalmeðferð heldur áfram í Birnumáli

Thom­as­ Møller Ol­sen huldi andlit sitt þegar hann gekk í …
Thom­as­ Møller Ol­sen huldi andlit sitt þegar hann gekk í dómsalinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalmeðferð í sakamáli á hendur Thomasi Møller Olsen, sem ákærður er fyrir að hafa banað Birnu Brjánsdóttur 14. janúar síðastliðinn, verður áfram haldið í Héraðsdómi Reykjaness í fyrramálið, en þinghald hefst klukkan 9:15. Fyrstur á vitnalista er Sebastian Kunz réttarmeinafræðingur, en einnig munu bera vitni Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sem stýrði rannsókninni á láti Birnu og Sigurður Páll Pálsson geðlæknir, ásamt fleirum. Áætlað er að vitnaleiðslum ljúki um ellefuleytið en eftir hádegi tekur við munnlegur málflutningur í málinu.

Fyrri hluti aðalmeðferðar í sakamálinu fór fram á mánudag og þriðjudag í síðustu viku, en fyrri daginn var Thomas í dómssalnum og gaf skýrslu. Þar gjörbreytti hann framburði sínum í málinu og virtist það koma Kolbrúnu Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara töluvert á óvart, enda hafði hann haldið sig við sama framburðinn í níu skýrslutökum hjá lögreglu fyrr á árinu.

Reyndi að varpa sökinni á Nikolaj

Thomas hafði ávallt haldið því fram að tvær stúlkur hefðu verið farþegar í rauðri Kia Rio-bifreið sem hann var með á leigu. Hann hafi ekið með þær frá flotkvínni við Hafnarfjarðarhöfn og sett þær út við Reebok fitness-líkamsræktarstöðina við Ásatorg í Hafnarfirði. Fyrir dómi reyndi hann hins vegar að varpa sök á Nikolaj Wilhelm Herluf Olsen, skipsfélaga sinn af togaranum Polar Nanoq, sem var með honum í bílnum föstudagskvöldið 13. janúar og aðfaranótt laugardagsins 14. janúar. Nikolaj hafði upphaflega stöðu sakbornings í málinu og sat í gæsluvarðhaldi í tvær vikur í janúar grunaður um aðkomu að hvarfi Birnu. Hann var hins vegar úti­lokaður sem sak­born­ing­ur, meðal ann­ars vegna þess að ekki fund­ust líf­sýni Birnu á föt­um hans. Thom­as gaf einnig skýrslu fyr­ir dómi í gær.

Hann sagði þá hafa stöðvað bílinn við golfskálann í Garðabæ þar sem Nikolaj hafi viljað fá smá „prívat“ tíma með Birnu, eins og hann orðaði það. Thomas hafi því farið út úr bílnum að pissa og horfa á stjörnurnar. Á meðan hafi Nikolaj keyrt í burtu á bílnum, með Birnu innanborðs. Thomas sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því hve lengi hann var í burtu. Hann hefði misst símann sinn í bílnum og gat því ekki hringt í Nikolaj.

Ni­kolaj Ol­sen bar vitni fyrir dómi.
Ni­kolaj Ol­sen bar vitni fyrir dómi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Thomas sagði Nikolaj svo hafa komið til baka á bílnum án Birnu. Hann sagði hann hafa verið mjög stressaðan og æstan og nuddað höndunum saman með uppglennt augu. Thomas sagðist hafa spurt um Birnu en fengið þau svör hjá Nikolaj að hún hefði ætlað að ganga heim því hún byggi rétt hjá.

Sagði lögreglu hafa verið vonda og álagið mikið

Thomas gaf þá skýringu á breyttum framburði að hann hafi verið undir miklu álagi við skýrslutökur hjá lögreglu og því hefði hann ekki munað hvað gerðist. Hann sagði einangrunina hafa verið sér erfiða og að lögreglan hefði verið vond við hann. Honum hafi hins vegar farið að líða betur eftir að hann losnaði úr einangrun. Þá hafi bæði líkaminn og hugurinn róast og hann hafi farið að muna hvað gerðist.

„Eft­ir að ég losnaði úr einangr­un og fór að hitta sál­fræðing róaðist ég. Eft­ir að lög­regl­an hætti að koma til mín. Lög­regl­an var vond við mig. Hún sýndi mér mynd­ir af því sem ég hafði ekki gert og kallaði mig öll­um ill­um nöfn­um. Þeir reyndu að nota kær­ust­una mína. Þeir sögðu við mig að þeir ætluðu að sýna henni mynd­irn­ar til að sýna henni hvernig skrímsli ég væri. Ég var und­ir mik­illi pressu og langaði að hjálpa, en sagði óvart ósatt,“ sagði Thomas fyrir dómi.

Nikolaj og Thomas báðir með áverka 

Þegar Nikolaj kom fyrir dóminn og bar vitni sagðist hann ekki kann­ast við lýs­ing­ar Thomas­ar á at­b­urðum aðfara­næt­ur laug­ar­dags­ins 14. janú­ar þegar Birna var myrt. Hann sagðist hafa verið mjög fullur þetta kvöld og að hann myndi lítið frá því.

Ni­kolaj sagði að sér hefði fund­ist eins og ein­hver væri í aft­ur­sæti bíls­ins þegar þeir Thom­as voru komn­ir að skip­inu í Hafn­ar­fjarðar­höfn. „Þetta er svo­lítið óljóst, en mér finnst eins og það hafi ein­hver verið aft­ur í. En ég var svo full­ur,“ sagði Ni­kolaj og sagðist ekki muna hvort hann hefði rætt þetta við Thom­as.

Páll Rúnar Kristjánsson, verjandi Thomasar, spurði hann út í læknaskýrslu vegna læknisskoðunar á honum, en þar kemur fram að Nikolaj hafi verið með marbletti á vinstri hendi. Nikolaj sagði hann hafa fengið marblettina við vinnu og að hann hefði ekki verið með ákverkann umrætt kvöld. Vísaði Páll þá til myndbands úr öryggismyndavél við Hafnarfjarðarhöfn, sem hann sýndi dómnum. Páll vísaði til þess að Nikolaj notaði ekki vinstri höndina þegar hann lokaði bílnum og að hann virtist bara nota hægri höndina þegar hann gengi upp landgang skipsins. „Varstu eitt­hvað slapp­ur í vinstri hend­inni?“ spyr Páll. Ni­kolaj svar­ar því neit­andi.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Páll Rúnar M. Kristjánsson verjandi.
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Páll Rúnar M. Kristjánsson verjandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir dómi var einnig greint frá ákverkum sem Thomas var með við handtöku, fimm dögum eftir hvarf Birnu. Urs Wies­brock, þýsk­ur rétt­ar­meina­fræðing­ur og dóm­kvadd­ur matsmaður í málinu, sagði áverkana geta hafa verið merki um mótspyrnu við árás. Um var að ræða klórför, en Thomas gaf þá skýringu að hann klóraði sér gjarnan í svefni og að áverkarnir væru tilkomnir vegna þess.

Bíllinn „lýstist upp“ 

Við aðalmeðferðina í síðustu viku kom fram að blóð úr Birnu hefði verið að finna um alla Kia Rio-bifreiðina sem Thomas var með á leigu. Blóðið hefði verið mjög greinilegt með berum augum þrátt fyrir að reynt hefði verið að þrífa bifreiðina.

Ragn­ar Jóns­son, rann­sókn­ar­lög­reglumaður hjá tækni­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, sagði fyrir dómi það hafa slegið sig hversu mikið magn af blóði var sýni­legt með ber­um aug­um í bíln­um. Síðar hafi verið notaður Lúminól-vökvi sem varð til þess að „hann lýst­ist upp bíll­inn, aft­ur í“.

Ragn­ar sagði að ljóst væri að Birna hefði fengið tvö aðskil­in högg og blætt hefði við það, en ekki væri hægt að segja til um hvort högg­in hefðu verið fleiri. Þar nyti sak­born­ing­ur vaf­ans.

Hann sagði blóðferla hafa komið frá aft­ur­sæt­inu og farið fram í bíl­inn. Vegna þess hve mikið hafði verið nuddað við þrif var þó erfitt að fara í eig­in­lega blóðferla­grein­ingu. Stak­ir blett­ir fund­ust þó á mæla­borði, á sól­skyggni og í lofti bíls­ins hægra meg­in, sem haldið höfðu línu­legri lög­un sinni. Því hafi verið hægt að segja til um að blóðið hafi komið úr aft­ur­sæti og fram.

Urs Oliver Wiesbrock sagði ekkert benda til annars en að …
Urs Oliver Wiesbrock sagði ekkert benda til annars en að hnefi hefði verið notaður til að veita Birnu áverka. mbl.is/Árni Sæberg

Hann sagði að þrátt fyr­ir að reynt hefði verið að þrífa bíl­inn hefði það ekki tek­ist vel. Und­ir hægra aft­ur­sæti hefði til að mynda verið blóðpoll­ur. Væri það til vitn­is um að á ein­hverj­um tíma­punkti hefði blóð farið frá vit­um Birnu, blóðið hefði verið það mikið.

Ragn­ar sagðist hafa verið viðstadd­ur krufn­ing­una og það hefði verið ljóst að hún var með sprungna vör og brotið nef. Um blóðrík svæði væri að ræða sem kæmi heim og sam­an við blóðpoll­inn í bíln­um.

Ragn­ar sagði ljóst að blóð hefði verið verið víða í bíln­um. „Það má ætla að við átök, þegar verið er að berja mann­eskju, að hún sé ekki kyrr. Þannig að við get­um fengið mikla hreyf­ingu,“ sagði hann. Aðspurður hvort hann teldi möguleika á því að Nikolaj gæti hafa verið gerandi í málinu svaraði hann: „Mér finnst það úti­lokað.“

Áverkarnir eftir hnefa

Það kom fram í máli réttarmeinafræðingsins Urs Olivers Wiesbrock að ekki væru nein­ar vís­bend­ing­ar um að vopn eða verk­færi hefðu verið notuð til að veita Birnu áverka. Hægt væri að segja með nokk­urri vissu að áverk­ar á lík­ama henn­ar hefðu verið eft­ir hnefa, en ekki spörk eða oln­boga. Mögu­legt væri þó að brotaþoli hefði verið skallaður og áverk­arn­ir mynd­ast þannig. Ekki væri hins veg­ar hægt að segja til um það með vissu á grund­velli um­merkja.

Þá kom fram í síðustu viku að fingraf­ar Thom­as­ar hefði fundist á öku­skír­teini Birnu sem fannst um borð í Polar Nanoq. Það var sent til rann­sókn­ar hjá norsku rannsóknarlögreglunni Kripos þar sem komist var að þeirri niður­stöðu að eina not­hæfa fingrafarið á öku­skírteininu væri af vísi­fingri hægri hand­ar hins grunaða. Fingraför Birnu, eiganda ökuskírteinisins, var hins vegar ekki að finna á því. Fingrafarasérfræðingur mat það hins vegar ekki óvenjulegt, sérstaklega ef eigandinn hefði ekki handfjatlað það nýlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert