Ísland mögulega með í Silkileiðinni

Guðlaugur Þór Þórðarson og Wang Chao.
Guðlaugur Þór Þórðarson og Wang Chao. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Spennan á Kóreuskaganum var meðal þess sem rætt var á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Wang Chao, varautanríkisráðherra Kína, í dag en kínverski ráðherrann er staddur hér á landi. Guðlaugur Þór kom á framfæri áhyggjum sínum á stöðu mála og fór þess á leit við Wang að kínversk stjórnvöld beittu áhrifum sínum gagnvart valdhöfum í Norður-Kóreu og gerðu allt sem þau gætu til þess að draga úr spennu.

„Staða mannréttindamála var ennfremur til umræðu á fundinum og hvatti Guðlaugur Þór kínversk stjórnvöld til úrbóta heima fyrir og til að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Tvíhliða samskipti Íslands og Kína voru einnig rædd, en á síðasta ári voru 45 ár liðin frá því að Ísland og Kína tóku upp stjórnmálasamband. Verslun og viðskipti milli ríkjanna hafa aukist verulega frá því að fríverslunarsamningur gekk í gildi árið 2014 og lýstu ráðherrarnir ánægju með þá þróun mála,“ segir í fréttatilkynningu.

Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi þess að greiða fyrir útflutningi á sauðfjárafurðum, fiskeldisafurðum, mjöli og lýsi til Kína og ljúka sem fyrst yfirstandandi vottunarferli. „Þá hefur kínverskum ferðamönnum á Íslandi fjölgað ört og stefnir í að þeir verði allt að 100.000 talsins á þessu ári til samanburðar við 67 þúsund í fyrra og 25 þúsund árið 2015. Lýstu þeir Guðlaugur og Wang gagnkvæmri ánægju sinni með þessa þróun.“

Ennfremur var rætt um samstarf á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og um loftlagsmálin og góð samskipti ríkjanna í málefnum norðurslóða. „Kínverjar kynntu fyrir sitt leyti áætlun sína um belti og braut (e. Belt and Road Initiative), sem stundum er nefnd hin nýja Silkileið, og kom til umræðu möguleg þátttaka Íslands í áætluninni í ljósi nýrra flutningsleiða á norðurslóðum.“ Kínverski ráðherrann ræddi í gær við íslenska embættismenn.

„Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri leiddi viðræðurnar fyrir Íslands hönd sem tóku meðal annars til tvíhliða mála, málefna norðurslóða, mannréttindamála og alþjóðamála, ekki síst stöðu mála í Norður-Kóreu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert