„Leit vel út í Excel-skjalinu“

Gunnar Ingi Birgisson er bæjarstjóri í Fjallabyggð.
Gunnar Ingi Birgisson er bæjarstjóri í Fjallabyggð. Sigurður Bogi Sævarsson

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, hefur þungar áhyggjur af hallarekstri almenningssamgangna í Eyþingi. Áhyggjurnar viðraði hann á fundi bæjarráðs á mánudag. Í samtali við mbl.is segir Gunnar að Eyþing sitji uppi með samning sem, þegar uppi verður staðið, gæti kostað sveitarfélögin í Eyþingi „marga tugi, jafnvel hundað“ milljónir króna.

Gunnar segir að þegar samningur við Vegagerðina og Strætó bs. hafi verið gerður hafi Vegagerðin lagt Eyþingi til fjármuni til rekstrar almenningssamgangna á Norðurlandi eystra. „Síðan fengu menn hér einhvern speking til að spá fyrir um farþegafjölda og tekjuflæði. Þetta leit allt mjög vel út í Excel-skjalinu,“ segir Gunnar.

Hann segir að reksturinn hafi átt að skila hagnaði. Annað hafi þó fljótt komið á daginn. „Eftir fyrsta rekstrarár var mínus en ekki plús. Og það hefur versnað síðan því farþegum hefur fækkað.“

Hann segir að dregið hafi verið úr tíðni ferða um 25%, eins og heimild hafi verið til í samningum, en að það hafi litlu skilað. „Það er viðvarandi halli – það eru tugir milljóna sem safnast upp og menn eru komnir upp á sker í málinu.“

Á Gunnari má skilja að hann telji ekki forsendur fyrir rekstri almenningssamgangna innan Eyþings, í það minnsta ekki með óbreyttu sniði. Eyþing, sem í eru sveitarfélögin á Norðausturlandi, sitji uppi með samning út næsta ár. „Menn verða að reyna að ræða við ríkið í þessu máli og sjá hvað hægt er að gera. Það er spurning hvort þetta uppsafnaða tap lendir á Eyþingi eða hvort ríkið ætlr að koma eitthvað inn í þetta.“ Ljóst sé að reksturinn standi ekki undir sér þrátt fyrir meðgjöfina frá ríkinu. „Þetta er grafalvarlegt.“

Á fundi bæjarráðs á mánudag var bókað: „Bæjarráð Fjallabyggðar lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu mála og telur eðlilegt að þetta verði rætt sérstaklega á aðalfundi Eyþings sem haldinn verður í lok október.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert