„Staðan er grafalvarleg“

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

„Staðan er grafalvarleg,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í kvöld, um stöðu sauðfjárbænda. Segir hann að ef ekki verði gripið inn í horfi sauðfjárbændur fram á allt að 56% launalækkun.

Eins og mbl.is greindi frá í kvöld var húsfyllir á umræðufundi um stöðu og mál­efni sauðfjár­bænda á Blönduósi í kvöld. Þungt hljóð var í fund­ar­mönn­um vegna fyr­ir­hugaðrar 35 pró­senta skerðing­ar á afurðaverði frá haust­verði síðasta árs.

Í færslu sinni segir Sigurður engan sætta sig við launalækkun sem þessa, en aðrar stéttir hafi lækkað um 30-35%. Afleiðingar þessa segir hann þær að algjör forsendubrestur verði á rekstri sauðfjárbúa, fjöldi ungra bænda með börn muni missa heimili sín og atvinnu, byggðaröskun verði með tilheyrandi áhrifum á ímynd lands og þjóðar og fjöldi fólks í þéttbýli muni missa vinnu. Bendir hann á að bein og óbein störf í landbúnaði séu á milli 10 og 12 þúsund. 

Þá segir Sigurður að ríkisstjórnin verði að „hætta aðgerðaleysi og pólitískum stór/sandkassaleik. Heimili og lífsviðurværi fólks er í veði.“ Einnig segir hann að taka þurfi upp útflutningsskyldu að nýju og horfa til annarra landa í þeim efnum, þar með talið Evrópusambandsins, eða með öðrum inngripum á markaði.

mbl.is