Ýmis geðheilbrigðisverkefni í skólunum

Innan grunnskóla Reykjavíkurborgar eru ýmis verkefni til að stuðla að …
Innan grunnskóla Reykjavíkurborgar eru ýmis verkefni til að stuðla að bættu geðheilbrigði nemendanna. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Nemendaverndarráð, námsráðgjafar, hluti kennslunnar í lífsleikni og önnur verkefni eru í gangi innan grunnskóla Reykjavíkurborgar til þess að stuðla að bættu geðheilbrigði grunnskólanemenda. Þetta kemur fram í skriflegu svari Sigrúnar Björnsdóttur, upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg, við fyrirspurn mbl.is.

„Samkvæmt grunnskólalögum er nemendaverndarráð í öllum skólum þar sem m.a. er fjallað um málefni einstakra nemenda sem eiga við andlega vanlíðan að stríða og reynt að vísa málum þeirra í farveg til sérfræðinga, s.s. á þjónustumiðstöðvum borgarinnar eða til heilbrigðisþjónustu. Í nemendaverndarráðum sitja m.a. sálfræðingar, félagsráðgjafar og námsráðgjafar,“ segir Sigrún.

Hún segir námsráðgjafa skólanna sinna mikilvægu hlutverki þegar nemendur þurfa stuðning vegna þunglyndis og kvíaða. Þá sé í lífsleikni, sem er hluti af samfélagsgreinum aðalnámskrár grunnskólanna, sérstakur efnisþáttur sem heitir Hugarheimur. Þar er fjallað um sjálfsmynd og hæfni nemenda til að átta sig á sér og öðrum.

„6 H heilsunnar er verkefni á vegum  heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og er hluti af heilsuvernd skólabarna og efni sem hjúkrunarfræðingar fara með inn í grunnskólann, allt frá 2. bekk.  Í 7.-9. bekk er m.a. fjallað um sjálfsmynd, líðan, geðheilsu, hamingju og fleira. Skólahjúkrunarfræðingar skima heilsu og líðan nemenda í 1., 4., 7. og 9. bekk og ræða í tengslum við þær skimanir lífsstíl og líðan við nemendur, til þess að geta gripið til aðgerða ef þörf krefur,“ segir í svari Sigrúnar.

Þá hafa grunnskólarnir og félagsmiðstöðvarnar fengið til sín fyrirlesara sem hafa fjallað um erfið mál eins og sjálfsvíg. „Skóla- og frístundasvið hefur líka styrkt Hugarafl og önnur forvarnarverkefni sem hafa miðlað fræðslu um geðheilbrigði  til nemenda og starfsfólks í grunnskólunum og leiðir til að bæta líðan.  Símenntunarnámskeið hafa einnig verið haldin fyrir kennara til að auka þekkingu og hæfni þeirra á sviði geðverndar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert