18 ára fangelsi verði lágmark

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilefni er til að fara fram á a.m.k. 18 ára fangelsisrefsingu í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Fredrik Møller Olsen sem ákærður er fyr­ir að hafa banað Birnu Brjáns­dótt­ur 14. janú­ar síðastliðinn.

Þetta sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssasksóknari  en nú fer fram munnlegur málflutningur í sakamáli S-127/2017, máli ákæruvaldsins gegn  Møller Olsen.

Ákæruvaldið fer fram á að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir manndráp og stórfellt fíkniefnabrot. Honum verði gert að greiða sakarkostnað, tæplega 4,5 milljónir króna og þessu til viðbótar eru einkaréttarkröfur foreldra og aðstandenda Birnu.

„18 ára fangelsisrefsing verði algert lágmark,“ sagði Kolbrún. „Það er fullt tilefni til að fara upp fyrir þau 16 ár sem hafa verið hámarksrefsing.“

Bein textalýsing á mbl.is frá aðalmeðferð málsins

Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness á fyrsta degi aðalmeðferðinnar …
Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness á fyrsta degi aðalmeðferðinnar í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rakti málið frá upphafi til enda

Við málflutning sinn reifaði Kolbrún málavexti og rakti hvernig leit að Birnu hófst, hvernig böndin bárust að sakborningi og hvernig rannsókn málsins studdi grunsemdir lögreglu. Hún hóf að rekja ákærulið 1, þann sem snýr að manndrápi.

Að mati ákæruvaldsins liggur fyrir sönnun þess að veist var að Birnu Brjánsdóttur í rauðu Kia Rio-bifreiðinni. Því til stuðnings eru ljósmyndir af bifreiðinni, skýrsla um blóðferlagreiningu í bílnum, framburður sérfræðinga, rannsóknir á innviðum bílsins, niðurstaða DNA-rannsóknar á sýnum sem tekin voru í bílnum. Þá var vísað til niðurstaðna krufningar og framburðar matsmanns og réttarmeinafræðings.

„Birna var slegin a.m.k. tveimur höggum eftir að henni byrjaði að blæða, síðan fékk hún ítrekuð högg í andlit og höfuð. Að auki var hert verulega að hálsi, veruleg ummerki um kyrkingu,“ sagði Kolbrún. „Jafnframt er sannað, að mati ákæruvaldsins, að Birna var ekki látin þegar hún var sett í sjó eða vatn þar sem hún drukknaði.“

Birna Brjánsdóttir fannst látin við Selvogsvita. Lögreglan segist hafa ákveðna …
Birna Brjánsdóttir fannst látin við Selvogsvita. Lögreglan segist hafa ákveðna hugmynd um hvar henni var komið í sjóinn, en ekki tókst þó að sanna það með óyggjandi hætti. mbl.is/Hallur Már

„Ekki hefur tekist að sanna með óyggjandi hætti hvar Birna var sett í sjó. Rannsókn lögreglu hefur ekki leitt það óyggjandi í ljós. Það er bara einn maður sem veit hvar það var og það er ákærði í málinu. Ákæruvaldið telur jafnframt að fram hafi komið sönnunargögn við rannsókn og málflutning um að ákærði hafi veist að Birnu og síðan komið henni fyrir í sjó eða vatni.“

Kolbrún sagði að vissulega hefði ákærði alla tíð neitað sök en ekki væri hægt að segja að framburður hans hefði verið stöðugur.

Hún vísaði til þess að hann hefði gefið skýrslu níu sinnum, meginstefið hefði verið að þeir Nikolaj Wil­helm Her­luf Ol­sen, skipsfélagi Thomasar af grænlenska togaranum Polar Nanoq, hefðu verið saman í miðborg Reykjavíkur þessa nótt, ekið um bæinn og tvær konur hefðu komið í bílinn hjá þeim. Þeir hefðu ekið um bæinn, síðan að skipinu og síðan hefði ákærði ekið konunum í Vallahverfið.

Ni­kolaj Ol­sen mætir í Héraðsdóm Reykjaness í síðustu viku.
Ni­kolaj Ol­sen mætir í Héraðsdóm Reykjaness í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki algerlega heiðarlegur

„Á þessari sögu eru blæbrigði, ákærði breytti framburði sínum og það að mati ákæruvaldsins bendir til þess að hann hafi ekki verið algerlega heiðarlegur eða valið að sleppa ákveðnum atriðum úr,“ sagði Kolbrún.

Þessu til staðfestingar nefndi hún nokkrar breytingar sem urðu á framburði Thomasar eftir því sem hann gaf skýrslu oftar.

„Ákærði mætti svo hér við upphaf aðalmeðferðar og hafði þá gjörbreytt framburði sínum. Núna var konan orðin ein,“ sagði Kolbrún og rakti framburð Thomasar frá því í síðustu viku þar sem hann sagði að Nikolaj hefði ekið á brott með konunni og skilið Thomas eftir.

„Þessi saga gengur ekki upp. Í fyrsta lagi má sjá að bílnum er ekið inn á bílastæði við golfklúbb Garðabæjar kl. 5.40, hann fer þaðan  5.46 og ekur í átt að Hnoðraholti. Bílnum var aldrei ekið aftur að golfklúbbnum. Bíllinn kemur þannig aldrei aftur til að sækja ákærða. Hann sést ekki ganga í burtu af svæðinu.“

Kia-Rio bifreið.
Kia-Rio bifreið.


„Að síðustu gengur tímasetningin ekki upp. Það er ekki óeðlilegt gat í tímasetningum. Þegar samsett myndband er skoðað sést að 15 mínútur eru frá því að bifreið er ekið um Sæbraut þangað til bíllinn sést við golfskálann. Frá því að hann fer þaðan líða 20 mínútur þangað til hann kemur að Polar Nanoq. Það var ekki nægur tími fyrir Nikolaj að fara á einhvern óþekktan stað, ganga í skrokk í Birnu, fara með hana á óþekktan stað, sækja Thomas og fara í skipið.

Mundi eitthvað allt annað átta mánuðum síðar

Kolbrún sagði að Thomas hefði borið fyrir sig að ástæða þess að hann var margsaga hefði verið að það hefði reynt svo á hann að vera í gæsluvarðhaldi og vera undir þrýstingi frá lögreglu.

„Í fyrstu skýrslu lýsir Thomas  í frjálsri frásögn  þeim meginatriðum sem voru meginstefið í hans frásögn. Þarna var hann ekki kominn í einangrun og ekki hægt að bera fyrir sig þrýstingi frá lögreglu,“ sagði Kolbrún. „Hann sagði síðan tveimur skipsfélögum sínum sömu sögu, þannig að þetta gengur ekki upp.“

„Þegar honum var bent á það, sagðist hann hafa verið svo drukkinn og í næstu skýrslutöku sagðist hann ekki muna neitt. Síðan, átta mánuðum síðar við réttarhöldin, man hann eitthvað allt annað.“

„Svo segir ákærði í þessum breytta framburði að þegar hann hafði skilað Nikolaj um borð í skipið hafi hann lagt við endann á flotkvínni til að bíða eftir ónefndum aðila sem hann átti að afhenda pakka. Þá hefði hann fengið önnur skilaboð og farið annað og ekki verið með símann sinn og verið þar um morguninn. Þessi skilaboð hefði hann átti í gegnum forritið Wickr þar sem hægt er að senda dulkóðuð skilaboð.“

Samsett mynd

Kolbrún sagði að athugað hefði verið hvort þetta forrit hefði verið í síma ákærða og hvort hann hefði notað það. „Þetta forrit fannst í síma ákærða, en þrátt fyrir að skilaboðin séu dulkóðuð er hægt að sjá hvort þetta hefur verið notað. Forritið var ekki notað þessa nótt.“

Ekkert mark takandi á framburði ákærða

„Þannig að það er ekkert mark takandi á breyttum framburði ákærða,“ sagði Kolbrún. „Hann hefur enga skýringar gefið og ekki hægt að byggja á framburði hans fyrir dómi. Hann er einfaldlega ekki að segja satt. Þar fyrir utan benda nánast öll rannsóknargögn á ákærða,“ sagði Kolbrún og sagði að hann hefði t.d. engar skýringar gefið á því að DNA hans fannst á skóreim Birnu.

Kolbrún vék þvínæst að fullyrðingum Thomasar um að hann hefði þurft að þrífa bílinn vegna þess að ælt hefði verið í hann. „Rannsókn lögreglu sýndi enga ælu, en aftur á móti komu fram merki um mikið blóð. Það var hamast á aftursætinu til að þrífa blóð, blóð sem ákærði sagðist aldrei hafa séð. En það sást vel með berum augum.“

Þá benti Kolbrún á að fötin sem hann var í um kvöldið hefðu ekki fundist.Hann hefur ekki getað skýrt út hvar þessi föt eru.

Ökuskírteini Birnu fannst í rusli um borð í togaranum og á þeim fingraför ákærða. Kolbrún vitnaði í framburð þriggja fingrafarasérfræðinga sem komust allir að þeirri niðurstöðu að það væri af hægri vísifingri Thomasar.

Birna Brjánsdóttir.
Birna Brjánsdóttir.

Bara einn til frásagnar

„Af hverju finnast skórnir, afhverju DNA, afhverju þetta fingrafar? Afhverju að þrífa bifreiðina og sjá ekkert blóð í henni? Engar skýringar og þegar við bætist ótrúverðugur og breytilegur framburður er  ekki hægt að vera í vafa um sekt mannsins.“

Kolbrún sagði að ekkert í rannsókn lögreglu benti til sektar Nikolaj. „Nikolaj var í sömu fötunum allt kvöldið, rannsókn sýndi að þau voru ekki nýþvegin og ekkert blóð fannst í þeim. Það er útilokað að gerandinn hafi ekki verið með neitt blóð á sér, a.m.k. ekki framan á peysunni,“ sagði Kolbrún og vitnaði þar til framburðar réttarmeinafræðingsins Kunz.

„Það er enginn skynsamlegur vafi uppi um að ákærði hafi svipt Birnu Brjánsdóttur lífi. Það skiptir ekki máli varðandi sekt hans þó það liggi ekki fyrir sönnun og vitneskja um hvert einasta atriði í atburðarásinni. Það er bara einn til frásagnar um það,“ sagði Kolbrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert