Þurfa að vera sterk rök fyrir að loka þinghaldi

Skýrslutaka yfir Sebastian Kunz rétt­ar­meina­fræðing­i fór fram fyrir luktum dyrum …
Skýrslutaka yfir Sebastian Kunz rétt­ar­meina­fræðing­i fór fram fyrir luktum dyrum í dag. mbl.is/Hanna

„Aðalatriðið hlýtur að vera að dómshald sé fyrir opnum tjöldum, slíkt er lýðræðislegt og það þurfa að vera mjög sterk rök fyrir að loka þinghaldi.“ Þetta segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, um þá ákvörðun dómara að láta skýrslutöku yfir þýska réttarmeinafræðingnum Sebastian Kunz fara fram fyrir luktum dyrum í Birnumálinu.

Talsverð umræða kom upp í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla eftir fyrstu tvo daga aðalmeðferðar málsins í síðustu viku, en þar komu meðal annars fram lýsingar matsmanna á áverkum Birnu. Séra Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur sem hefur fylgt fjölskyldu Birnu síðan málið kom upp sagði meðal annars að ýmsar upplýsingar málsins ættu ekki erindi við almenning.

Hjálmar segist ekki vera sammála þessum sjónarmiðum. Hann segir óheyrilega sorglegan atburð hafa átt sér stað, en að ekki sé hægt að sakast við fjölmiðla að segja frá því sem fram komi, það sé hlutverk þeirra.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.

„Maður getur skilið það í ákveðnum málum, eins og í kynferðisbrotamálum og þegar um börn er að ræða að þinghald sé lokað, en meginreglan á að vera opið þinghald,“ segir Hjálmar og bætir við að í málum eins og nú sé fyrir héraðsdómi komi fram erfiðar upplýsingar, en að hann telji rök fyrir því að allt málið eigi engu að síður að vera opið.

Hjálmar segir að það hljóti að þurfa að koma fram frekari skýringar á því að umrædd skýrslutaka hafi farið fram fyrir luktum dyrum og hvaða upplýsingar hafi þar komið fram. Það sé nauðsynlegt til að fullt traust sé borið til dómstóla og að almenningur geti séð út frá hvaða gögnum og rannsóknum dæmt sé í málinu. „Við breytum ekki því sem gert var, en að ásaka fjölmiðla um að fjalla um það sem gerðist, það er á engan hátt réttlætanlegt,“ segir Hjálmar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert