Nikolaj var afar drukkinn

Ni­kolaj Ol­sen í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku.
Ni­kolaj Ol­sen í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nikolaj Wilhelm Herluf Olsen, skipsfélagi Thomasar Møller Ol­sen sem ákærður er fyr­ir að hafa myrt Birnu Brjáns­dótt­ur, var afar drukkinn föstudagskvöldið 13. janúar og aðfaranótt laugardagsins. Þetta kom fram í vitnisburði Maríu Erlu Káradóttur, sem starfar á The English Pub, en þeir Thomas og Nikolaj komu þangað þetta örlagaríka kvöld.

Hún var meðal þeirra sem báru vitni við aðalmeðferð málsins gegn Thomasi í morgun, en hún var að störfum á skemmtistaðnum aðfaranótt laugardagsins 14. janúar.

Ni­kolaj var grunaður um aðild að láti Birnu og sat í gæslu­v­arðhaldi í tvær vik­ur, frá 18. janú­ar. 

María greindi m.a. frá kynnum sínum af Nikolaj en þau hafa verið vinir frá árinu 2015. Að sögn Maríu drakk hann talsvert magn áfengis kvöldið sem um ræðir. Þetta kvöld hitti María líka Thomas í fyrsta skiptið. „Ég hafði aldrei hitt hann áður,“ sagði María.

Hún sagði að ölvunarástand Nikolajs hefði verið slíkt að starfsmenn staðarins hefðu þurft að hafa af honum afskipti. Spurð um ástand Thomasar svaraði María: „Mér fannst hann vera bláedrú þegar hann mætti, sá hann drekka einn bjór og tvö skot.“

Spurð um hvort hún hefði séð þá síðar um kvöldið, sagðist hún hafa heyrt frá Nikolaj síðar um kvöldið en hefði hvorugan hitt.

Hún hefði einnig heyrt frá Nikolaj daginn eftir, hann hefði þá látið vel af sér og síðan hefði hún heyrt frá honum á þriðjudeginum, þegar ákveðið hafði verið að snúa Polar Nanoq aftur til hafnar í Hafnarfirði. „Þá sagði hann að verið væri að snúa skipinu aftur til Íslands og hann vissi ekki hvers vegna það var,“ sagði María.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar, spurði hana um háttalag Nikolajs þetta kvöld og hvort það hefði bent til þess að hann hefði viljað kynnast kvenfólki sagðist hún ekki hafa orðið vör við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert