Rökrétt að fara fram á 18 ár

Kolbrún Benediktsdóttir
Kolbrún Benediktsdóttir Hanna Andrésdóttir

„Nú er það dómstóla að taka ákvörðun,“ sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari eftir að dómþingi í aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Fredrik Møller Olsen sem ákærður er fyr­ir að hafa banað Birnu Brjáns­dótt­ur 14. janú­ar síðastliðinn, var slitið skömmu fyrir klukkan hálf fimm í dag. 

Kolbrún sagði málið hafa verið bæði stórt og umfangsmikið.

Ákæruvaldið fer fram á a.m.k. 18 ára fangelsisvist yfir Olsen og Kolbrún segir að það hafi verið rökrétt krafa. „Hámarksrefsing fyrir manndráp sé 16 ár og það virðist í því sambandi ekki skipta öllu hvernig brotin eru framin eða hvort menn játa sök eða neita. Dómafordæmi fyrir fíkniefnabrot eru tvö ár þannig að það gefur því auga leið að við förum fram á 18 ára lágmarksrefsingu. Ákæruvaldið benti á í sínum málflutningi að hugsanlega væri tilefni til að fara hærra,“ sagði Kolbrún.

Hún sagði að fátt hefði komið sér á óvart í málflutningi verjanda, hann hefði verið í takt við það sem áður hefði komið fram.

Spurð hverju hún byggist við, þegar dómur fellur, sagðist hún lítið geta spáð fyrir um það. Ákæruvaldið teldi sig hafa fært fullnægjandi sönnur á sekt Olsens. „Það er dómstólanna að meta hvort það hafi tekist,“ svaraði Kolbrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert