„Hún var sólargeisli í lífi foreldra sinna“

Hanna Lára flutti einkaréttarkröfu á hendur Thomasi fyrir hönd foreldra …
Hanna Lára flutti einkaréttarkröfu á hendur Thomasi fyrir hönd foreldra Birnu. mbl.is/Ófeigur

Foreldar Birnu Brjánsdóttur, Brjánn Guðjónsson og Sigurlaug Hreinsdóttir, gera hvort um sig kröfu um að Thomas Møller Olsen greiði þeim 10 milljónir króna í miskabætur, ásamt vöxtum og útfararkostaði, en hann er ákærður fyrir að hafa banað dóttur þeirra, Birnu Brjánsdóttur, hinn 14. janúar síðastiðinn.

Hanna Lára Helgadóttir er lögmaður þeirra beggja og flytur einkaréttarkröfur þeirra í munnlegum málflutningi í sakamálinu á hendur Thomasi, sem fer nú fram í Héraðsdómi Reykjaness.

„Birna var lífsglöð stúlka sem alltaf var hægt að ná í. Þess vegna leituðu þau strax til lögreglu þegar hún mætti ekki til vinnu á laugardeginum, sem brást ekki strax við. Þau leituðu þau því til almennings í gegnum samfélagsmiðla,“ segir Helga Lára. „Birna var náin fjölskyldu sinni. Hún var sólargeisli í lífi foreldra sinna og bróður sem öll sitja nú eftir í áfalli og sorg.“

Með áfallastreitu á háu stigi

Hún segir áfallið margfalt. í fyrstu hafi þau upplifað örvæntingu yfir því að reyna að fá yfirvöld til að bregðast við og koma þeim í skilning um að dóttir þeirra væri í hættu. Svo hafi líkfundurinn leitt til dæmigerðra einkenna áfallastreitu sem báðir foreldrar eru nú greindir með á háu stigi. Vísar lögmaður í vottorð frá presti og lækni sem hafa aðstoðað foreldrana.

„Sumir dagar hafa reynst þeim svo erfiðir að þau hafa átt erfitt með að komast fram úr rúminu. Óhjákvæmilega hafa þau misst úr vinnu. Brjánn hefur starfað sem tölvunarfræðingur og Sigurlaug sem kennari ungmenna á aldur við Birnu.“ Þá greinir hún frá því að þau hafi þurft að aðstoða bróður Birnu við að takast á við sitt áfall.“

Birna Brjánsdóttir var sólargeislinn í lífi foreldra sinna og bróður. …
Birna Brjánsdóttir var sólargeislinn í lífi foreldra sinna og bróður. Þau sitja nú eftir í áfalli og mikill sorg. Facebook

Hanna Lára segir líf þeirra aldrei verða samt og þurfi aðstandendur að bera þungan bagga um ókomna tíð. Óvíst verði hvernig þau komi til með að jafna sig, enda geti áfallastreita  oft einnig leitt til líkamlegra veikinda.

„Það sem kom fyrir Birnu gerði þau að þolendum“

Hún bendir á að mæður Einars Arnar Birgissonar og Hannesar Helgasonar hafi veikst eftir að synir þeirra voru myrtir og veikindin hafi dregið þær til dauða. Einar var myrtur af vini sínum og viðskiptafélaga, Atla Helgasyni, í nóvember árið 2000, en Hannes var myrtur af Gunnari Rúnari Sigurþórssyni í október árið 2011. Máli sínu til stuðnings leggur Hanna Lára fram rannsóknir á áföllum kvenna og afleiðingum þeirra. Bendir hún á að áfallastreituröskun geti leitt til verulegrar skerðingar á lífsgæðum.

Hún segir að málarekstur og breytingar á framburði ákæra, sem og fréttaflutningur af málinu hafi verið þeim þungbær og orðið til þess að sorgarferli hafi varla náð að hefjast. Hún gagnrýnir umfjöllun fjölmiðla um réttarhöldin harðlega. Segir að fréttaflutningur hafi verið mjög ítarlegur og einkennst af æsifréttastíl. Þá hafi nánast bein útsending af rétthöldunum aukið á vanlíðan foreldranna.

„Það sem kom fyrir Birnu gerði þau að þolendum. Það er ljóst að forsendur til bata eru erfiðar og þau eiga langt í land. Þau hafa leitað sér aðstoðar fagaðila og muna gera það áfram. Ljóst er að kostnaðurinn verður umtalsverður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert