Skeiðarárbrú tekin úr notkun

Morsárbrú framar á myndinni og Skeiðarárbrú í baksýn.
Morsárbrú framar á myndinni og Skeiðarárbrú í baksýn. Vegagerðin/Anna Elín Jóhannsdóttir

Í vikunni var umferð hleypt á nýja brú yfir Morsá á Skeiðarársandi og er því ekki lengur ekið yfir lengstu brú landsins Skeiðarárbrú þegar ekið er eftir þjóðveginum. Er nýja brúin 68 metra löng og tvíbreið, en Skeiðarárbrú er 880 metra löng og einbreið með tvíbreiðum útskotum þar sem bílar gátu mæst.

Brúin yfir Morsá.
Brúin yfir Morsá. Vegagerðin/Anna Elín Jóhannsdóttir

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að þegar vatn hafi farið að renna í vestur og ekki lengur í farveg Skeiðarár hafi orðið ljóst að ekki var lengur þörf á Skeiðarárbrú sem hafi áður verið gríðarlega mikilvægur hlekkur í tengingu þjóðvegarins á Suðausturlandi. Þegar Vatnajökull fór að hopa hafi vatnið farið annað og því var byggð brú yfir Morsá, en það er bergvatnsá sem eftir stendur.

Brúin langa var opnuð árið 1974 og þá Hringvegurinn um leið þar sem áður var enginn vegur. Að hluta til var verkefnið sem fólst í fleiri brúm og vegagerð fjármagnað með tilstuðlan almennings sem keypti happdrættismiða í því skyni. Ríkið gaf út happdrættis-skuldabréf til tíu ára, og tók þannig lán hjá almenningi sem átti einnig möguleika á happdrættisvinningi.

Brú yfir Morsá. Skeiðarárbrú til vinstri.
Brú yfir Morsá. Skeiðarárbrú til vinstri. Vegagerðin/Anna Elín Jóhannsdóttir

Í fyrra byggði brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar 68 metra langa eftirspennta bitabrú yfir Morsá. Nýr Hringvegur og brú um Morsá er um 2,9 km að lengd og leysir af hólmi Skeiðarárbrú. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framtíð Skeiðarárbrúar. 

Nýja brúin yfir Morsá.
Nýja brúin yfir Morsá. Vegagerðin/Anna Elín Jóhannsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert