Meðal þeirra bestu í ofurhlaupum

Í apríl fór ofurhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson í aðgerð á nára og segist ekki hafa náð að æfa eins og hann vildi eftir það. Engu að síður sigraði hann í Laugavegshlaupinu fyrr í sumar og í gær endaði hann í sjötta sæti í einu sterkasta ofurhlaupi ársins, sem er hluti af fjórum fjallamaraþonum í Mt. Blanc í Frakklandi. Var hann á tímanum 11 klukkustundir og 14 mínútur að því er fram kemur á hlaup.is. Með því stimplar hann sig enn á ný sem einn af öflugari ofurhlaupurum í heiminum í dag.

Þorbergur hljóp svokallað CCC hlaup sem var 101 kílómetri auk þess sem hækkunin nam um 6.100 metrum. Hann tók einnig þátt í hlaupinu síðustu tvö ár, en árið 2015 var hann í 15. sæti og í fyrra í 9. sæti. „Ég átti góðan dag, það var kalt, en það henntar mér miklu betur,“ segir Þorbergur í samtali við mbl.is.

Kominn á stall þeirra bestu

Hann segir að tíminn sinn hafi verið talsvert betri í fyrra, en þó sé ekki alveg hægt að miða tímana saman, enda hafi brautinni verið breytt í ár vegna mikilla rigninga og hættu á aurskriðu. Segist hann vera gríðarlega sáttur með árangurinn, enda hafi keppnin í ár einnig verið sterkari en síðustu ár.

Það verður ekki hjá því komist að spyrja Þorberg að því eftir þessa frammistöðu, í þessari stóru keppni sem um 2.150 manns tóku þátt í, hvort hann sé ekki kominn á stall með þeim bestu í ofurmaraþonhlaupum í heiminum. „Jújú, ætli það sé ekki bara orðið þannig,“ segir Þorbergur hógvær um árangurinn.

Þorbergur Ingi Jónsson kemur í mark í gær eftir 101 …
Þorbergur Ingi Jónsson kemur í mark í gær eftir 101 kílómetra hlaup við Mt. Blanc. Ljósmynd/aðsend

Gat ekki æft af fullum krafti

Þorbergur segist hafa verið duglegur í sumar að „safna hæðarmetrum,“ en þar á hann við að hlaupa upp og niður í fjalllendi. Hann segir að vegna aðgerðarinnar hafi hann aftur á móti ekki getað beitt sér af fullum krafti, en að reynsla, hlaupagrunnurinn sem hann hafi byggt upp og regluleg hæðametrasöfnun hafi greinilega skilað sér. „Maður verður að fá þreytu í fæturna og kunna að hlaupa á þreyttum fótum,“ segir hann.

Þá fór Þorbergur einnig erlendis til að æfa sig í talsverðri hæð, t.d. á Tenerife og í Ölpunum. Það hafi komið sér vel í dag, enda er hlaupið nokkuð hátt og sem fyrr segir er gríðarleg hækkun.

Andlega hliðin skiptir miklu máli

Spurður hvernig honum hafi liðið á meðan hlaupinu stóð segir Þorbergur að eftir 50 kílómetra sé komin mikil þreyta í fæturnar og smá andleg bugun. Þá skipti öllu að halda höfðinu í lagi og passa upp á að næra sig mikið til að halda líkamanum gangandi orkulega. Segir hann hlaup sem þetta vera mjög kaflaskipt þegar komi að þessum andlega þætti.

Næring í ofurhlaupum getur skipt öllu máli og Þorbergur segir að hann „carbo loadi“ dagana fyrir með að borða mikið af kolvetnum líkt og almennt, en á móti dragi hann úr æfingum. Hlaupadaginn fái hann sér svo brauð, banana og hnetusmjör um morguninn og í hlaupinu dæli hann í sig svokölluðum GU-gelum, allt að þremur á klukkustund. Til að fá aukna fjölbreytni í magann á meðan á hlaupinu stendur fær hann sér einnig Snickers, kók, orkudrykki og appelsínur.

Aðstæður við Mt. Blanc voru að sögn Þorbergs frábærar fyrir Íslendinga í gær. Hitastigið hafi verið frá 3-17°C og þegar ofar dró og hitinn fór undir 10°C segir hann að sér hafi liðið vel. Erlendir hlauparar þoli jafnan hitann betur, en Þorbergur segir að 3°C passi sér mjög vel þegar hann sé á hlaupum.

Þorbergur Ingi Jónsson á hlaupum í gær.
Þorbergur Ingi Jónsson á hlaupum í gær. Ljósmynd/Aðsend

Átta Íslendingar hlupu við Mt. Blanc

Þorbergur var ekki eini Íslendingurinn sem tók þátt í ofurhlaupunum í gær, en átta þátttakendur frá Íslandi hófu hlaup.

Í svokölluðu OCC hlaupi sem er 56 kílómetrar hlupu þær Melkorka Kvaran og Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir. Í CCC flokkinum sem Þorbergur var í hljóp einnig Davíð Vikarsson. Í UTMB flokkinum þar sem hlaupið er 171 kílómetri voru þeir Ágúst Kvaran, Börkur Árnason, Hall­dóra Matth­ías­dótt­ir Proppé og Gunnar Júlísson.

Þrátt fyrir að vera nýbúinn með þessa 100 kílómetra er Þorbergur með plön fyrir næsta ár, en hann stefnir á að fara á heimsmeistaramótið í ofurhlaupum á Spáni í maí á næsta ári þar sem hlaupið er 85 kílómetrar. „Þar ætla ég að vera í toppstandi og miða allt við það hlaup,“ segir hann, en í hlaupinu þarf að hækka sig um 5.000 metra. Þá horfir hann einnig til bandaríska meistaramótsins í San Francisco, en það hlaup eru 80 kílómetrar.

Þorbergur Ingi Jónsson kemur í mark í gær. Hann endaði …
Þorbergur Ingi Jónsson kemur í mark í gær. Hann endaði í sjötta sæti af rúmlega 2.000 keppendum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is