Ekki samkomulag ríkis og bænda

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Mynd/Aðsend

„Ekki er um að ræða samkomulag stjórnvalda og samtaka bænda,“ segir í sameiginlegri yfirlsýsingu frá Bændasamtökum Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda um þær tillögur sem Þorgerður Katrín Gunarsdóttir landbúnaðarráðherra hefur í dag kynnt. Þær miða að því að fækka fé í landinu um 20% og leysa þannig vanda bænda.

Samtökin tvö segjast í yfirlýsingu hafa átt í viðræðum við stjórnvöld síðan í mars og að þær hafi gengið misjafnlega. „Samtalinu hefur þó alltaf verið haldið áfram.“

Fram kemur að tillögurnar séu settar fram á ábyrgð ráðherra. Margt sé þar sem hægt sé að taka undir og mun koma bændum til aðstoðar, nú þegar fyrir liggi þriðjungslækkun á afurðaverði. „Hins vegar vantar þær aðgerðir sem taka á fyrirsjáanlegum birgðavanda eftir sláturtíðina, sem nú er hafin. Samtökin telja því að tillögurnar leysi ekki vandann að fullu þó þær séu í rétta átt.“

Í yfirlýsingunni segir að bændur hafi lagt fram tillögur til stjórnvalda sem taki mið af því að taka heildstætt á vandanum sem við blasir. „Lykilatriði í þeim lausnum er að virkja tímabundnar aðgerðir til sveiflujöfnunar, svo sem að gera afurðastöðvum kleift að taka sameiginlega ábyrgð á útflutningi kindakjöts. Þær hugmyndir hafa ekki fengið brautargengi og staðan því óbreytt. Hættan er sú að þær aðgerðir sem landbúnaðarráðherra nú leggur til séu ekki nægar og verði aðeins til þess að draga ástandið á langinn.“

Þá segir að samkomulag sé um að flýta endurskoðun sauðfjárhluta búvörusamninga. Stefnt sé að niðurstöðu fyrir 1. apríl á næsta ári. „Í þeirri vinnu þarf að ræða áfram þau mál sem ekki eru leyst og eins meta árangur af þeim aðgerðum sem ráðist verður í núna,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert