Þeir sem hætta strax fá greitt í fimm ár

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra. mbl.is/Eggert

Meginmarkmið tillagna stjórnvalda vegna erfiðleika í sauðfjárrækt er að „draga úr framleiðslu um 20%, mæta kjaraskerðingu bænda, styðja við sauðfjárbúskap á jaðarsvæðum og gera úttekt á birgðum sauðfjárafurða og afurðastöðvakerfinu.“

Þetta kemur á vef Stjórnarráðsins, þar sem tillögurnar eru birtar. Sauðfjárbændur hafa mátt þola mikla tekjuskerðingu undanfarin tvö ár. Í fyrra var verð til bænda lækkað um 10% og á þessu ári lækkuðu afurðastöðvarnar greiðslurnar um 25-36%.

Fækkun um 20%

Fram kemur í tillögunum að markmiðið sé að fækka fé um 20%. Til þess að gera þeim það kleift er lagt til að greiða þeim bændum sem vilja hætta 90% af greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í fimm ár. Þeir sem kjósa að hætta á næsta ári eiga kost á 70% greiðslum í þrjú ár, ef ákvörðun liggur fyrir eigi síðar en 1. júlí.

Þá er lagt til að greitt verði 4.000 króna sláturálag á ær sem koma til slátrunar þessa sláturtíð en ríkið hyggst fjármagna þau útgjöld á fjáraukalögum. Gert er ráð fyrir að það verkefni kosti 250 milljónir króna. Það jafngildir slátrun á 62.500 ám.

Ríkið hyggst verja öðrum 250 milljónum króna í greiðslur vegna kjaraskerðingar. Bændur, sem hafa fleiri en 150 vetrarfóðraðar kindur, eiga þá rétt á greiðslum sem miðast við fjölda kinda á vetrarfóðrum. Þessi lausn er hugsuð „til að bæta að hluta kjaraskerðingu þeirra sem halda áfram sauðfjárframleiðslu.“

Kindur í kró. Sláturleyfishafar hafa tilkynnt um allt að 35% …
Kindur í kró. Sláturleyfishafar hafa tilkynnt um allt að 35% lækkun á afurðaverði til bænda. mbl.is/Atli Vigfússon

Svæðisbundinn stuðningur

Þá stendur til að verja 99 milljónum í svæðisbundinn stuðning en sú fjárhæð verður 145 milljónir á næst ári. „Þessar greiðslur koma fyrst og fremst þeim bændum til góða sem eiga erfitt með að sækja atvinnu utan búsins vegna fjarlægðar frá þéttbýli. Til þessa verkefnis verði varið 150 m.kr. til viðbótar því fé sem áskilið er í samningnum.“

Fleiri tillögur eru lagðar fram, svo sem aftenging framleiðsluhvata og aðgerðir vegna skuldamála bænda. Þá á að gera úttekt á afurðastöðvakerfinu og hvernig megi hagræða þar auk þess sem úttekt á birgðum og samsetningu þeirra mun fara fram.

Fleiri tillögur er að finna í skjalinu en það má lesa hér. Undir plaggið skrifar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina