„Á tánum“ vegna United Silicon

Um 85 starsfmenn starfa í Kísilveri United Silicon í Helguvík.
Um 85 starsfmenn starfa í Kísilveri United Silicon í Helguvík. Skjáskot af heimasíðu United Silicon/silicon.is

Starfsmenn United Silicon hafa hingað til unnið mikla næturvinnu en vegna rekstarerfiðleika verksmiðjunnar í Helguvík er nú fyrst og fremst unnið á dagvinnutíma. Fyrirtækið hyggst bæta starfsmönnunum upp þá tekjuskerðingu sem tilkemur vegna minna vaktaálags.

Þetta segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. Rúmlega 40 starfsmenn kísilversins eru í félaginu en heildarfjöldi starfsmanna er í kringum 85. Flestir eru útlendingar og búsettir í Reykjanesbæ. Fyrirtækið hefur ekki flutt starfsfólk sérstaklega inn til landsins heldur ráðið útlendinga sem hér hafa búið og starfað, m.a. í öðrum málmvinnslum.  

Kristján hefur nýverið farið yfir starfsmannamálin með forsvarsmönnum United Silicon í kjölfar þess að Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemi kísilversins og fyrirtækið fór í greiðslustöðvun. Unnið verður fyrst og fremst að viðgerðum á verksmiðjunni á daginn á næstunni og hafði United Silicon frumkvæði að fundinum.

„Vinnutímafyrirkomulagið hefur áhrif á launakjörin en þeir segjast ætla að taka tillit til þess og bæta mönnum það upp,“ segir Kristján í samtali við mbl.is. „Það kveður við svolítið nýjan tón,“ segir hann. „Batnandi mönnum er best að lifa.“

Launin áttu að vera hærri

Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur hefur áður gert athugasemdir við launakjör starfsfólksins. Í upphafi var rætt um að launin yrðu sambærileg þeim sem greidd eru í álverinu og járnblendinu á Grundartanga.  Í matsskýrslu um verksmiðjuna sagði til dæmis: „Þegar kísilverksmiðjan verður komin í fullan rekstur, með fjóra ofna, munu um 160 manns starfa hjá fyrirtækinu. Stór hluti starfsmannanna verður sérmenntaður, auk þess sem margir háskóla- og iðnmenntaðir munu starfa hjá fyrirtækinu og munu þeir fá hærri laun en í sambærilegum atvinnugreinum.“

„Það stóðst ekki,“ segir Kristján aðspurður um þetta atriði. Hann tekur þó fram að launin séu yfir lágmarkslaunum og að fyrirtækið hafi greitt þau á réttum tíma hingað til.

Hann segir að þó að „friður ríki“ um starfsmannamálin í augnablikinu sé verkalýðsfélagið „alveg á tánum“ og fylgist gaumgæfilega með framvindunni og að staðið verði við alla kjarasamninga. „En ég er uggandi, auðvitað er maður það. Það er ekki gott að hafa þetta ástand,“ segir Kristján og vísar þar til greiðslustöðvunarinnar. Slíkt hafi óhjákvæmilega áhrif á framtíðarhorfur starfsmannanna og atvinnuöryggi þeirra. „En er á meðan er.“

mbl.is