Falsaðir ráðningarsamningar þekkt vandamál

Grunur leikur á að ráðningarsamningar starfsmanna fyrirtækisins Korman hafi verið …
Grunur leikur á að ráðningarsamningar starfsmanna fyrirtækisins Korman hafi verið falsaðir. Fyrirtækið starfaði tímabundið við Þeistareykjavirkjun. mbl.is/Helgi Bjarnason

Falsaðir ráðningarsamningar eru þekkt vandamál á íslenskum vinnumarkaði, sérstaklega þegar erlendar starfsmannaleigur eiga í hlut.

Í Morgunblaðinu dag er greint frá því að grunur leikur á að pólska fyritækið Korman, sem starfaði um tíma sem undirverktaki við framkvæmdirnar á Þeistareykjum, hafi ekki greitt starfsmönnum eftir íslenskum kjarasamningum og að ráðningarsamningar starfsmanna hafi verið falsaðir.

Frétt mbl.is: Telja ráðningarsamninga falsaða

„Já, þetta er þekkt vandamál. Þetta eru fyrirtæki sem starfa tímabundið hér á landi en ber að skila  gögnum til Vinnumálastofnunar sem hefur eftirlit með að rétt kaup og kjör séu virt,“ segir Halldór Oddsson, lögræðingur hjá ASÍ, í samtali við mbl.is.

Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ.
Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ. Mynd/ASÍ

Í tilfelli starfsmanna Korman kom í ljós að þeir könnuðust ekki við undirskriftir sem þeir áttu að hafa ritað á ráðningarsamningana. Starfsmennirnir fengu aðgang að ráðningarsamningum sínum í gegnum stéttarfélagið Framsýn sem leitaði til Vinnumálastofnunar.

„Því miður hefur það nokkrum sinnum komið upp að við höfum fengið mál inn á okkar borð þar sem einstaklingar hafa ekki kannast við þá ráðningarsamninga sem hefur verið framvísað,“ segir Halldór.  

Mál af þessu tagi eru tiltölulega auðsótt að sögn Halldórs. „Þessi mál sem við höfum fengið hafa verið leiðrétt og eftir því sem ég best veit hefur Vinnumálastofnun beitt þvingunaraðgerðum til að refsa viðkomandi fyrirtækjum. Stofnunin hefur auk þess stjórnvaldsheimild til að leiðrétta þessi mál tiltölulega fljótt og örugglega.“

Vinnustaðaeftirlit og fræðsla eru lykilatriði

Alvarlegri þáttur málsins sé hins vegar sá að ekki rati öll mál inn á borð ASÍ. „Við hjá frjálsu verkalýðshreyfingunni reynum að sinna fræðslu og vekja athygli á hver eru rétt kaup og kjör. Eitt af stærsta og umfangsmesta verkefni verkalýðshreyfingarinnar í heild undanfarin tvö til þrjú ár er vinnustaðaeftirlit þar sem farið er á vinnustaði og reynt að ræða við fólk,“ segir Halldór.  

Erfitt hefur reynst að greina ákveðið mynstur í málum þar sem um falsaða ráðningarsamninga er að ræða en Halldór segir að nær undantekningalaust sé um erlendar þjónustuveitur eða starfsmannaleigur að ræða sem þurfa lögum samkvæmt að veita Vinnumálastofnun upplýsingar um kaup og kjör.

„Þeir starfsmenn sem verða einna helst fyrir svindli eru erlendir starfsmenn og ungt fólk, það er kannski eina mynstrið sem við getum greint.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert