Mætir enn til vinnu 93 ára

Björgvin Magnússon í vinnu sinni hjá Viðlagatryggingu Íslands.
Björgvin Magnússon í vinnu sinni hjá Viðlagatryggingu Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgvin Magnússon er 93 ára gamall. Hann lætur aldurinn ekki stöðva sig og er virkur í vinnu og áhugamálum. Hann mætir til vinnu á hverjum degi fyrir hádegi í vinnuaðstöðu sem hann hefur hjá Viðlagatryggingu Íslands.

Björgvin starfaði við kennslu og skólastjórnun í 47 ár og hélt áfram á vinnumarkaði að því loknu.

Björgvin er enn virkur í skátastarfi og hefur fengið staðfestingu á því að hann sé að öllum líkindum elsti starfandi skáti í heimi.

Feðginin Björgvin Magnússon og Edda njóta samverunnar í Feneyjum.
Feðginin Björgvin Magnússon og Edda njóta samverunnar í Feneyjum.


Björgvin á eina dóttur, Eddu. Björgvin segir samband sitt við dótturina mjög gott. Það fer ekki á milli mála hversu stoltur hann er af Eddu sinni. Edda Björgvinsdóttir leikkona hefur kitlað hláturtaugar landans í áraraðir. Hún lék nýlega dramatískt hlutverk í myndinni Undir trénu. Myndin var valin til sýningar á elstu og virtustu kvikmyndahátíð heims í Feneyjum og fékk þar mjög góða dóma.

Pabbagrobb

Björgvin fór með dóttur sinni á kvikmyndahátíðina í Feneyjum. „Hulda Ragnheiður Árnadóttir skipulagði ferðina og ég gruna Eddu um að hafa verið með í því. Þær komu mér á óvart með henni. Þetta var eitt ævintýri frá upphafi til enda,“ segir Björgvin og bætir við: „Auðvitað á ég ekki orð yfir hvað ég er hrifinn af stelpunni. Hvað heldur þú? Já og af þeim öllum. Þessu frábæra fólki sem kemur að myndinni.“

Björgvin vill ekki hrósa of mikið. Hann heldur því fram að þá verði hann of leiðinlegur með allt pabbagrobbið. En stoltið yfir Eddu tekur yfir.

Björgvin Magnússon, Kristján Þór Júlíusson og Edda Björgvinsdóttir.
Björgvin Magnússon, Kristján Þór Júlíusson og Edda Björgvinsdóttir.


„Eddu var sagt að hún hefði stolið senunni í þessum líka flotta kjól úti í Feneyjum. Hún er nú ekkert unglamb lengur, verður hálfsjötug í september,“ segir Björgvin og hlær. „Ég var sko líka stoltur af minni þegar henni var boðið aðalhlutverkið í Risaeðlunum í Þjóðleikhúsinu án þess að vera á samningi þar. Edda er rosalega dugleg. Hún dreif sig í meistaranám á Bifröst og tók diplóma í jákvæðri sálfræði komin yfir fimmtug. Ég má ekki grobba mig meira af henni. Nú verð ég að hætta,“ segir Björgvin.

Björgvin hefur frá mörgu að segja eftir langa ævi, fjölbreyttan starfsferil og skáta- og félagsstörf. Hann er í viðtali við Daglegt líf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert