Kona í haldi vegna heimilisofbeldis

Kona var handtekin á heimili í Kópavogi um hálftvöleytið í nótt en hún hafði ráðist á sambýlismann sinn. Lögreglumenn í Kópavogi þurftu að fá aðstoð lögreglumanna af lögreglustöðinni á Hverfisgötu vegna heimilisofbeldisins og líkamsárásar.

Konan er vistuð í fangageymslu lögreglunnar en auk þess að ráðast á sambýlismann sinn með ofbeldi þá hafði hún í hótunum við lögreglumenn sem höfðu af henni afskipti. Sambýlismaðurinn slapp án meiðsla. 

Á fjórða tímanum í nótt var ökumaður stöðvaður á bifreið sem tilkynnt var stolin 2. september. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa stolið bifreiðinni og akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann er vistaður í fangageymslu lögreglunnar vegna rannsóknar málsins. 

Lögreglan var beðin um að veita ölvuðum manni aðstoð í miðborginni seint í gærkvöldi en maðurinn átti ekki í nein hús að venda. Hann fékk því að gista á lögreglustöðinni í nótt.

Hælisleitandi var handtekinn á athafnasvæði Eimskip við Korngarða um tvöleytið í nótt. Hann er vistaður í fangageymslu vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert