„Karlmennska er áhugasvið mitt“

Fiann Paul rær hér við Jan Mayen sem hann lýsir …
Fiann Paul rær hér við Jan Mayen sem hann lýsir sem systureyju Íslands því hún er eldfjallaeyja og líkist Íslandi að gerð. Ljósmyndir/Fiann Paul

Sjávarróðrarleiðangrinum Polar Row undir forystu Íslendingsins Fiann Paul lauk á Jan Mayen í síðastliðinni viku. Morgunblaðið tók viðtal við þennan stórmerkilega mann sem er fæddur og uppalinn í Póllandi en ýmislegt hefur á daga hans drifið eftir að hann flutti til Íslands árið 2006. Óhætt er að segja að hann sé hugmyndaríkur, framtakssamur og óhræddur við að fara ótroðnar slóðir.

Aldrei fyrr í skráðri sögu hafa jafn mörg heimsmet verið slegin í einum róðri,“ segir Fiann Paul stoltur af sjávarróðursleiðangri sínum, Polar Row, sem hann leiddi og var fremsti ræðari í. Lagt var af stað í sjávarróðrarleiðangurinn frá Tromsö í Noregi, farið til Svalbarða, að ísröndinni í norðri, og þaðan til Jan Mayen þar sem ferðin endaði, en upphaflega stóð til að róa þaðan til Sauðárkróks. Fiann Paul fékk far með norsku strandgæslunni frá Jan Mayen til Narvik í Noregi þaðan sem hann flaug til Íslands.

Leiðangurinn vel heppnaður

Fiann Paul og Carlo Facchino reru líka saman í Kyrrahafsróðri.
Fiann Paul og Carlo Facchino reru líka saman í Kyrrahafsróðri.


Fiann er glaður í bragði en þó ekki alveg sáttur við fjölmiðlaumfjöllun hérlendis og erlendis sem hefur einkennst af því að einblína á að síðasti kaflinn, frá Jan Mayen til Sauðárkróks, kláraðist ekki og því hve ólympíugullverðlaunahafinn í róðri, Alex Gregory sem treysti sér ekki til að klára síðasta kaflann af ferðalaginu, hafi barmað sér yfir því hvað honum var kalt og með margar blöðrur.

„Ferðin gekk frábærlega í alla staði, við slógum ellefu hraðamet af tólf sem við ætluðum okkur, við vorum aldrei í lífshættu og ölduhæðin var með minnsta móti,“ bætir hann við. Sjálfur er Fiann þekktur fyrir að róa ávallt berhentur. Þeir hafi ekki fengið á sig brotsjó og engar árar brotnað. Enginn af áhöfninni missti móðinn á milli staða og það hafi einnig verið mikilvægt.

Ástæðan fyrir því að ferðin endaði á Jan Mayen væri að ekki tókst að fá flugvélalendingarleyfi fyrir nýja áhöfn á Jan Mayen, en leiðangurinn hafði farið í gegnum tvennar áhafnir, fyrir utan Fiann sjálfan og einn annan áhafnarmeðlim, Carlo Facchino.

Sjávarróður óþægileg íþrótt

„Sjávarróður er afar krefjandi og getur verið óþægileg íþrótt. En óþægindi er ekki það sama og að vera í lífshættu. Það að vera þreyttur, kalt eða með blöðrur þýðir ekki að maður hljóti varanlegt tjón af, komist ekki að landi eða á leiðarenda,“ bætir hann við. Það beri þó að virða það ef fólk treysti sér ekki til að fara lengra.

Fiann á nú samtals átján heimsmet í sjávarróðri og standa þau öll enn óslegin. Hann varð fyrstur manna til að eiga samtímis hraðamet í róðri á fjórum heimshöfum samtímis og er sá árangur hans sögulegur og einstakur og skráður í Heimsmetabók Guinness.

„Það voru tvær nýjar áhafnir sem vildu koma og klára með okkur leiðangurinn, en það má segja að það hafi strandað á því hvað það var dýrt að fá þær til okkar með skipi, vegna þess að lendingarleyfi fyrir flugvél fékkst ekki. Mér líkar ekki að klára ekki það sem ég ætla mér og geri það ekki nema ég lendi á vegg eins og gerðist að þessu sinni,“ segir Fiann og bætir við að auðvitað sé enginn leiðangur vel heppnaður nema allir komist heilir heim.

Diplóma hjá norska hernum

Fiann Paul á góðru stundu með félaga sínum Alex Gregory …
Fiann Paul á góðru stundu með félaga sínum Alex Gregory en hann er tvöfaldur verðlaunahafi ólympíugulls í sjávarróðri.


Þessi úthafsróður var sá fjórði sem hann hefur róið og sá besti fram að þessu, að sögn hans.

„Á Jan Mayen klára norskir hermenn þjálfun og fá diploma með því að róa þúsund kílómetra í róðrarvél. Þeir veittu mér sérstakt diploma fyrir þá þrjúþúsund kílómetra sem ég reri núna og mér finnst afar vænt um það. Fjölskylda og vinir Anders Svedlund sendu mér líka árarnar hans að gjöf eftir róðurinn yfir Kyrrahafið. Hann var sænskur ævintýramaður sem reri fyrstur manna einn yfir Indlandshaf,“ sagði Fiann stoltur og hrærður.

„Það var mun meira að sjá í Norður-Íshafinu en í hinum leiðöngrunum, mikið dýralíf, firðirnir á Svalbarða eru stórkostlegir, ísröndin var sérstök upplifun og svo er Jan Mayen einstök, jarðfræðilega líklega eina landið sem líkist Íslandi. En á hinum úthöfunum var bara sjór hvert sem litið var og meira af rusli og hákörlum,“ segir Fiann.

Þeir sáu rostunga, háhyrninga, seli, höfrunga, ótrúlega marga hvali en sem betur fer enga ísbirni. Að róa í Norður-Íshafinu segir hann vera einstakt fyrir sjávarróður sem íþróttagrein því að það hafi verið eins og óklifið fjall.

Fiann Paul er með meistaragráðu í arkitektúr og kennslu, fæddur í Varsjá í Póllandi árið 1980 en hefur búið á Íslandi síðan 2006. Fiann er íslenskur ríkisborgari síðan 2011. Hann býr nú í Kópavogi en er í sálfræðinámi í Zürich í Sviss. Áhuginn á norðrinu og Norðurlöndunum kviknaði í æsku. „Mig dreymdi um að flytjast burt til kaldari landa, einkum þangað sem skýjafarið er fagurt eins og á Íslandi,“ segir Fiann en hann hefur næmt auga fyrir fegurð. „Ég og annar félagi minn fluttum til Íslands 2006 eins og margir aðrir Pólverjar,“ segir hann.

Börn og brjóstagjafir

Náttúrufegurð er mikil á Jan Mayen, hér má sjá hið …
Náttúrufegurð er mikil á Jan Mayen, hér má sjá hið risavaxna og ægifagra eldfjall Beerenberg en það er er 2.277 m. hátt.


„Við vildum halda listsýningu á meðan aðrir fóru og unnu sem iðnaðarmenn. Það var mikið hlegið að okkur og okkur var sagt að við værum draumóramenn, en svo fórum við og gerðum þetta,“ segir Fiann, en hann var annar tveggja höfunda Dialog, sýningar ljósmynda af íslenskum börnum sem prýddu gatnamót Lækjargötu og Bankastrætis árið 2008. Fiann var einnig höfundur verksins See it! sem ætlað var til að koma af stað vakningu brjóstagjafar, en sýningin var í Tryggvagötu í miðbæ Reykjavíkur árið 2011. Sem listamaður tók Fiann einnig þátt í að styðja velferð færeysks hestakyns sem var í útrýmingarhættu.

„Ég er afar þakklátur fyrir hvatningu og stuðning sem ég hef fengið á Íslandi, það hefur verið mér afar mikils virði. Ég er hugmyndaríkur og mér finnst gaman að hrinda hugmyndum mínum í framkvæmd,“ segir Fiann hress í bragði og segir að það sé mun auðveldara á Íslandi en víða annarsstaðar.

Aðspurður segir hann uppáhalds íslenska listamanninn sinn vera Örlyg Kristfinnsson sem rekur Síldarminjasafnið á Siglufirði. „Örlygur er svo einlægur í sinni list,“ segir Fiann. Uppáhalds erlendi listamaðurinn hans er svo Rockwell Kent. „Hann er íþróttamaður og listamaður eins og ég, en það er fremur sjaldgæft,“ segir Fiann.

Góðverk og karlmennska

Árið 2011 stofnuðu Fiann og vinkona hans Natalie Caroline góðgerðarsamtökin Fiann Paul Foundation sem byggðu grunnskóla í Himalajafjöllum, á afskekktum stað í Nepal, árið 2013. Skólinn menntar 150 nemendur ár hvert. Í verkefninu gat Fiann nýtt sér menntun sína á sviði arkitektúrs og kennslu.

„Við stefnum á að byggja annan núna í mars 2018 Indlandsmegin í Himalajafjöllunum,“ segir Fiann, en hann hefur dvalist á afskekktum stöðum í Himalajafjöllum og á Grænlandi. Fiann talar um að nú langi hann að hætta róðrinum, hann vill fara að koma sér fyrir og eignast fjölskyldu. Nú leggur hann stund á framhaldsnám í djúpsálfræði (e. depth psychology) og undirgengst þjálfun til þess að verða sálgreinir við C.G. Jung stofnunina í Zürich í Sviss.

Hans helsta áhugasvið er karlmennskutýpan (e. manhood archetype). „Karlmenn eru í erfiðleikum á ýmsum sviðum, þeir eru að dragast aftur úr í skólakerfinu, þeir lenda frekar í útistöðum við lögin, misnota oftar vímuefni og sjálfsmorð eru mun algengari hjá karlmönnum. Mig langar að sýna gott fordæmi í lífinu og hjálpa öðrum, en maður getur einungis hjálpað með því að leiða með góðu fordæmi. Til að breyta heiminum þarf maður að byrja á sjálfum sér.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert