Segja vinnubrögðin til skammar

Mary og Haniye.
Mary og Haniye. Samsett mynd

Þrír þingmenn úr röðum Pírata, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna mótmæla ákvörðun stjórnvalda að senda úr landi tvær ungar stúlkur og fjölskyldur þeirra.

Þar eiga þær við hina 11 ára gömlu Haniye Maleki  og 8 ára gömlu Mary, sem vísað verður úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar á næstu dögum. Mótmæli vegna þess eru fyrirhuguð á Austurvelli í dag.

„Vinnubrögð stjórnvalda í þessum málum, sem og öðrum sambærilegum, eru til háborinnar skammar og stangast á við Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna sem Ísland lögfesti árið 2013,“ segir í yfirlýsingu þeirra Evu Pandoru Baldursdóttur, þingmanns Pírata, Oddný G. Harðardóttur þingmanns Samfylkingarinnar og Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna.

Þær segja að sérhvert barn eigi meðfæddan rétt til lífs og aðildarríki Sameinuðu þjóðanna skuli tryggja að það megi lifa og þroskast.

„Ef við leyfum þessum stúlkum og öðrum börnum að vera send aftur á flótta setjum við skammarblett á Ísland sem stjórnvöld þurfa ávallt að bera á sér,“ skrifa þær.

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Við undirrituð, sem gegnum hlutverki talsmanna barna á Alþingi fyrir okkar flokka, mótmælum kröftuglega þeirri ákvörðun stjórnvalda að senda aftur á flótta tvær ungar stúlkur og fjölskyldur þeirra. Vinnubrögð stjórnvalda í þessum málum, sem og öðrum sambærilegum, eru til háborinnar skammar og stangast á við Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna sem Ísland lögfesti árið 2013. Samkvæmt Barnasáttmálanum skulu allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn vera byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra. Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og skulu aðildarríkin tryggja að það megi lifa og þroskast. Aðildarríki skulu tryggja að börn verði ekki skilin frá foreldrum sínum nema ef velferð barnanna verður ekki tryggð með öðru móti.

Ef við leyfum þessum stúlkum og öðrum börnum að vera send aftur á flótta setjum við skammarblett á Ísland sem stjórnvöld þurfa ávallt að bera á sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert