Vel sóttur og friðsamur fundur

Maleki-feðginin mættu á mótmælafundinn þar sem brottvísun þeirra var mótmælt.
Maleki-feðginin mættu á mótmælafundinn þar sem brottvísun þeirra var mótmælt. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var vel sóttur fundur, tilfinningaríkur, fallegur og friðsamur,“ segir Sema Erla Serdar, formaður Solar­is – hjálp­ar­sam­taka fyr­ir hæl­is­leit­end­ur og flótta­fólks á Íslandi. Samtökin stóðu fyrir mótmælafundi á Austurvelli í dag þar sem brottvísun tveggja stúlkna, hinnar 8 ára gömlu Mary frá Nígeríu og hinnar 11 ára gömlu Haniye Maleki sem er ríkisfangslaus var mótmælt. Stúlkurnar og fjölskyldur þeirra mættu á fundinn.  

Sema telur að tæplega þúsund manns hafi mætt á fundinn. Fundurinn samþykkti kröfu um að yfirvöld sýni mannúð og falli frá fyrri ákvörðun sinni um brottvísun Haniye og Mary og fjölskyldum þeirra og veiti þeim vernd á Íslandi. „Þetta var samþykkt með miklu lófataki og hrópum,“ segir Sema. 

Mótmælaspjöld voru á lofti.
Mótmælaspjöld voru á lofti. mbl.is/Árni Sæberg

Vona að skilaboðin komst til yfirvalda

Hún bendir á að fólk taki örlögum þeirra í lífinu næri sér sættir sig ekki við þetta. „Þó það mætti greina sorg og miklar tilfinningar á fundinum var einnig rík samstaða,“ segir Sema. Hún segir boltann vera hjá stjórnvöldum. „Við sendum skýr skilaboð. Ég vona að þessi skilaboð komist til þeir sem stýra og fara með völd,“ segir Sema og bætir við: „Við gefumst ekki upp.“   

Mótmælin fóru friðsamlega fram.
Mótmælin fóru friðsamlega fram. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert