„Þetta þarf ekki að hafa nein áhrif á ykkur, krakkar“

mbl.is/Eggert

Hjónaskilnaður er skilgreindur sem áfall fyrir alla sem í hlut eiga, hjónin sjálf, börn þeirra og í raun fjölskylduna alla, segir Soffía Elín Sigurðardóttir sálfræðingur í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Loforð, ný, leikin íslensk sjónvarpsþáttaröð fyrir alla fjölskylduna sem RÚV hóf sýningar á um síðustu helgi, hefur vakið nokkurt umtal, en þar segir frá „ósköp venjulegum krökkum í Reykjavík. Lífið tekur stakkaskiptum þegar foreldrar þeirra ákveða að skilja,“ eins og segir í dagskrárkynningu.

Illa staðið að málum ...

Í upphafi fyrsta þáttar upplýsa foreldrarnir börn sín tvö um skilnaðinn. Faðirinn hefur orðið og kemur sér, eftir langa mæðu, að efninu. Nefnir að oft á tíðum sé mjög illa staðið að svona málum gagnvart börnum og þess vegna hafi þau viljað einbeita sér að því að gera þetta rétt. Og flytur börnum sínum þennan boðskap, reyndar áður en hann kemur sér að því að segja berum orðum hvað sé í gangi: „Þetta þarf ekki að hafa nein áhrif á ykkur, krakkar!“

Er það svo? Getur hjónaskilnaður einhvern tíma ekki haft nein áhrif á börnin? Stysta svarið við því er: nei.

Soffía Elín Sigurðardóttir sálfræðingur segir mjög mikilvægt að upplýsa börnin þegar ákvörðunin hefur verið tekin en ekki láta þau verða vitni að vangaveltum í þá veru áður en foreldrarnir ákveða sig.

„Best er að útskýra það stutt og hnitmiðað hver staðan er; að foreldrarnir séu að skilja og síðan er mikilvægt að geta svarað spurningum frá börnunum því oftast er margt sem þau vilja vita,“ segir hún.

„Eftir að barni er tilkynnt um skilnað getur það spurt skringilegra spurninga en oftast um einfalda, praktíska hluti. Þá er mikilvægt að svara, en hins vegar ekki trufla barnið því með því að tala um skilnaðinn aftur að fyrra bragði.“

Algengar spurningar eru: Hvað verður um mig? Hvar á ég að búa? Þarf ég að skipta um skóla? Barn veltir oft fyrir sér hvort það missi vinina og hvort mikið rask verði á högum þess strax í kjölfar skilnaðar.

Soffía Elín leggur áherslu á að mjög mikilvægt sé að segja börnunum satt þótt óþarfi sé að segja allt; best sé að ákveðin mörk séu á því hversu mikill hluti börnin séu af sambandi foreldra sinna. „Til dæmis er ekki gott að segja nákvæmlega frá því hvort annaðhvort foreldrið hafi gert eitthvað slæmt eða þess háttar og forðast skal að ræða neikvætt við börnin um hitt foreldrið.“ Það sé eitt hið versta sem foreldri geti gert við þessar aðstæður. „Hin manneskjan er enn foreldri barnsins og með slíku tali er í raun bara verið að rífa barnið niður.“

Þá segir Soffía Elín afar mikilvægt að passa að börnin líti ekki svo á að þau séu ástæða skilnaðar.

Eitt sem þarf að hafa í huga, segir Soffía Elín, er að tilkynna kennurum og íþróttaþjálfurum hvernig komið er. „Þeir sem koma mest að daglegu lífi barnsins verða að vita að breytingar verði á hegðun og líðan barnsins. Þetta á reyndar bæði við um börn og unglinga.“

Rútína skiptir börnin miklu máli, segir Soffía Elín; að ákveðnir hlutir séu í sem föstustum skorðum. Þess vegna sé mikilvægt að foreldrar hugi að því hvernig næstu dagar verði eftir að tilkynnt er um skilnað. „Mikilvægt er að segja börnunum að foreldrarnir séu áfram foreldrar þótt þeir búi ekki saman og miklu skiptir að foreldrar geti átti í átakalausum samskiptum við uppeldi barnanna, að þeir rífist ekki eða eigi í sem minnstum átökum fyrir framan börnin, bæði fyrir og eftir skilnaðinn, og að börnunum líði ekki illa þegar báðir foreldrar eru á staðnum, til dæmis þegar verið er að sækja barn eða skila því.“

Stundum léttir

Fullvissa þarf börnin um að foreldrarnir hverfi ekki þótt þeir skilji en auðvitað er ýmislegt mjög misjafnt eftir fólki, segir Soffía Elín. „Aðstæður eru stundum þannig að börn finna til léttis í kjölfar skilnaðar; hann er þó alltaf áfall og minning verður alltaf til um augnablikið þegar barni er sagt frá. En hafi barn búið við mikil átök og rifrildi getur það verið léttir að sá stormasami tími sé á enda.“

Soffía Elín segir nauðsynlegt að hafa í huga að þegar allt er komið í fastar skorður á ný; húsnæðismál og hvaðeina í daglegu lífi, komi stundum fram streitueinkenni, bæði hjá börnum og foreldrum. „Þá myndast svigrúm til að ákveðnar tilfinningar komi fram og ekki er óeðlilegt að barnið sé ekki alveg eins og það á að sér. Þó að þessum kafla sé lokið er málinu ekki lokið tilfinningalega.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert