Vill sjá sérfræðinga á „gólfið“

Elín Ebba hefur unnið í marga áratugi í geðheilbrigðismálum.
Elín Ebba hefur unnið í marga áratugi í geðheilbrigðismálum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þegar við ræðum um geðheilbrigðismál förum við alltaf í að finna sökudólga. Nú er ekki passað nógu vel upp á fólk sem liggur á geðdeild á Landspítalanum að það fyrirfari sér ekki, það þarf að niðurgreiða sálfræðinga o.fl. Við förum oftast í að skoða afleiðingar en skoðum ekki jafnmikið hvernig við sem samfélag getum reynt að koma í veg fyrir þetta ástand. Þar skipta forvarnir í geðheilbrigðismálum mestu máli,” segir Elín Ebba Ásmundsdóttir framkvæmdastjóri Hlutverkaseturs, iðjuþjálfi og fyrrverandi dósent við Háskólann á Akureyri.

Í dag, 10 september, er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga. Elín Ebba segir mikilvægt að skoða geðheilbrigðismálin heildstætt og að forvarnir eigi að gegna lykilhlutverki. Land­spít­al­inn hef­ur talsvert verið gagn­rýndur und­an­farið vegna tveggja sjálfs­víga sem orðið hafa á geðdeild spít­al­ans með stuttu milli­bili.

Oft áfall fyrir fólk að leggjast inn á geðdeild

Elín Ebba bendir á að í kjölfarið verði umræðan sem fari af stað í samfélaginu viðkvæm. Hún bendir á að ef það eigi alfarið að koma í veg fyrir að fólk geti gert slíkt þar innandyra myndi það líkjast meira fangelsi þegar áherslan í geðheilbrigðismálum, einkum síðustu ár, er að kerfið verði að snúa meira að notendunum sjálfum og sé manneskjulegt. „Þetta er svo vandmeðfarið. Það má heldur ekki gleyma að það er mikið áfall fyrir fólk að leggjast inn á geðdeild. Ef það upplifir að það sé hættulegt sjálfu sér erum við að undirbyggja hræðsluna,” segir Elín Ebba og  bætir við að slíkt sé heldur ekki neinum til góðs.

Hlutverkasetur. Mynd úr safni.
Hlutverkasetur. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrsta æviskeiðið mikilvægast

Elín Ebba hefur margra áratuga reynslu af starfi í geðheilbrigðismálum og brennur fyrir málefnið. Hún segir að fjölbreytt úrræði séu í boði í geðheilbrigðismálum en tekur fram að ýmislegt megi bæta en hins vegar felist lykillinn í því efla og bæta forvarnir strax á fyrsta æviskeiðinu.

Hún vill að í forvarnarskyni ætti að leggja mestu áherslu á góð  tengslamyndun foreldra við börn sín í frumbernsku. „Á því aldursskeiði skiptir tengslamyndun barna og foreldra miklu máli og hefur áhrif á þróun andlegra og líkamlegra sjúkdóma síðar á lífsleiðinni. Ef foreldrar geta ekki myndað þessi góðu tengsl við börn sín búum við til vandamál framtíðarinnar sem geta jafnvel komið upp 20 til 30 árum seinna,” segir Elín Ebba og vísar til erlendra rannsókna sem sýna fram á mikilvægi tengslamyndunar. Hún tekur fram að áhersla er lögð á þetta meðal annars í ungbarnaeftirliti á heilsugæslustöðvunum en meira þarf að koma til.

Í því samhengi vill hún sjá breytingar á vinnumarkaði þar sem fleiri hlutastörf væru í boði svo hægt væri að sníða samfélagið betur að þörfum fólks með börn. Hún segir mikilvægt að foreldrar eigi val um að vera lengur heima með börnin sín áður en það snýr til vinnu og börnin fara til dagforeldra eða leikskóla, stundum of snemma. „Er hægt að hafa það þannig að ein fyrirvinna sé nóg? Getur atvinnulífið aðlagað sig betur að þörfum barnafólks?“ spyr Elín Ebba.

Annað sem fengist með fleiri hlutastörfum er að fleira fólk sem er á örorku kæmist inn á vinnumarkaðinn. „Við viljum öll vinna, gera gagn og eiga í samskiptum við fólk,“ segir Elín Ebba og bætir við: „Þessi venjulegu samskipti virðast vera á undanhaldi þar sem fólk hittist augliti til auglitis.” Eitt lýsandi dæmi fyrir Elínu Ebbu er að hún tók ekki annað í mál annað en að hitta blaðamann í eigin persónu og meira að segja kvaddi með hlýju faðmlagi.

Hlutverkasetur. Mynd úr safni.
Hlutverkasetur. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Fjölbreytt starf í geðheilbrigðismálum 

Eitt af því vill gleymast í umræðunni um geðheilbrigðismál er fjölbreytt starf sem fari fram á hinum ýmsu stöðum víðs vegar í samfélaginu sem almenningi er ekki endilega kunnugt um þegar umræðan um geðheilbrigðismál fer sem hæst í samfélaginu. „Umræðan síðustu missiri hefur gert það að verkum að þessi úrræði hafa fallið í skuggann og við sem störfum á þessum stöðum höfum áhyggjur af að almenningur haldi að lítið sé til og það sem sé til staðar sé fjársvelt,” segir Elín Ebba og tekur fram að sú er ekki alfarið raunin.

Flest öll úrræðin sem eru í boði fyrir fólk með geðraskanir, á höfuðborgarsvæðinu hittast reglulega til að efla samvinnu milli staða. Þetta eru fulltrúar frá Hlutverkasetri, Geysi, Höndina, Geðvernd, athvörf rekin af Rauða krossinum; Vin í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi, Lækur í Hafnarfirði. „Það er svo mikilvægt að þeir sem sinna þessum störfum hittast reglulega og fara yfir stöðuna,“ segir Elín Ebba. 

Þarf að efla samvinnu sérfræðinga

Eitt af því sem hún vill sjá meira af í öllu starfi í geðheilbrigðismálum er meiri samvinna sérfræðinga með fólki með geðraskanir á „gólfinu“ en ekki einungis á skrifstofunni eða inná stofnunum. Hún vill einnig efla alla teymisvinnu þar sem fólk með geðraskanir er einnig haft með í ráðum. „Ég vil að fólk með geðraskanir hafi meiri aðgang að sérfræðingum og geti til dæmis spjalla við þá á tilteknum miðstöðum í stað þess að þurfa alltaf að fara inn á stofu. Þar setur fólk sig alltof oft í aðrar stellingar en ef það fær sér kaffibolla með geðlækni eða félagsráðgjafa t.d. í Hlutverkasetri,“ segir Elín Ebba og bendir á að stundum þurfi ekki alltaf mikið til til að beina fólki á rétta braut. Stundum hreinlega einföld samskipti milli fólks.

Elín Ebba segir að meiri árherslu verði sett í að efla starf með ungu fólki. „Við verðum að skoða áhrifavaldana í samfélaginu sem gera það að verkum að stór hluti af ungum karlmönnum flosnar úr skóla, finnur ekki starf við hæfi og endar jafnvel á örorku. Getur verið að eitthvað af þessu tengist því að við höfum ekki haft tíma til að mynda tengsl? og ekki haft þekkingu til að vinna úr áföllum?“ spyr Elín Ebba. 

Elín Ebba segir mikilvægt að foreldrar eigi val um að …
Elín Ebba segir mikilvægt að foreldrar eigi val um að vera lengur heima með börnin sín áður en það snýr til vinnu og börnin fara til dagforeldra eða leikskóla. mbl.is/Ómar Óskarsson

Höfum lagt of mikla áherslu á langskólanám

Kröfur samfélagsins eru einnig miklar í garð ungs fólks, að sögn hennar. „Höfum við lagt alltof miklar áherslu á framhaldsmenntun að við höfum tekið frá þessum einstaklingum áhugann til að gera eitthvað sem er verklegt sem þykir ekki nógu fínt í dag? Allir foreldrar leggja áherslu á að börnin fari í menntaskóla og háskóla. Það er ekki endilega það sem samfélagið þarf. Við þurfum fólk í alls konar störf. Við erum þegar búin að hefja upp á stall ákveðin störf sem krefjast mikillar menntunar. Við sem fólk sækjum eftir virðingu og þar af leiðandi oft í ákveðin störf. Fall í virðingu hefur mikil áhrif á geðheilsu,” segir Elín Ebba. 

Flest samfélagsúrræðin fyrir fólk með geðraskanir eru reknir með þeim hætti að einstaklingurinn getur farið inn þegar honum hentar, hann þarf ekki að panta tíma. Fólk sem hefur þegar nýtt sér þessi samfélagsúrræði kemur frekar þangað þegar því líður illa því oft eru þetta praktísk mál sem það veit ekki hvernig á að höndla. „Kannski vantar stuðningsnet sem við flest höfum í gegnum vini og fjölskyldu,“ segir Elín Ebba.

Þarf að vinna á fordómum

Helsta hindrunin fyrir fólk að sækja í slíkar miðstöðvar eru oftast  fordómar. Fordómar í eigin garð og annarra. Hugsanir á borð við: „Ég á ekki að vera á sama stað og þessi eða hinn því hann er svona í útliti en ekki hinsegin,“ segir Elín Ebba sem vill sjá opnara samfélag sem er laust við að allir séu sífellt með puttann á lofti og gera athugasemdir við útlit og hegðun annarra. „Við erum öll manneskjur maður er manns gaman. Við megum ekki gleyma því,“ segir hún og brosir í sólskinsgulum klæðnaði í haust dumbungnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert