Borgarstjóri í nýjum starfshóp um Reykjavíkurflugvöll

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Ráðherra hefur skipað starfshóp sem falið verður að finna ásættanlega lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Þetta kom fram á fundi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar sem fram fór í Iðnó fyrr í dag.

Nefndina skipa Hreinn Loftsson hæstaréttarlögmaður, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir fyrrverandi sveitarstjóri á Tálknafirði, Róbert Guðfinnsson athafnamaður og Linda Gunnarsdóttir flugstjóri.

Í samtali við mbl.is segir Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að hópnum verði ekki sett ströng tímamörk en að unnið verði markvisst og ákveðið í þessum málum. 

Jón segir skipan nefndarinnar vera í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar segir meðal annars að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila.

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tilkynnti um skipan nýs starfshóp …
Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tilkynnti um skipan nýs starfshóp um framtíð Reykjavíkurflugvallar á fundi um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar í Iðnó í dag. mbl.is/Golli

Hópurinn mun taka við skýrslu um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar sem kynnt var í dag. Skýrslan er unnin af Þorgeiri Pálssyni, fyrrverandi flugmálastjóra og prófessor emeritus við HR, fyrir ráðuneytið. 

Jón hefur jafnframt lýst sig reiðubúinn til að hefja viðræður um framtíð Reykjavíkurflugvallar, en viðræðurnar þurfi að taka mið af ýmsum skilyrðum, meðal annars að flugvellir á suðvesturhorni landsins þurfa að uppfylla skilyrði um að allir landsmenn komist til og frá höfuðborgarsvæðinu innan 3,5 klukkustunda ferðatíma. 

Þá verða flugvellir á suðvestur hluta landsins að uppfylla skyldur öryggishlutverks gagnvart íbúum landsins, þar með talið almannavarnarhlutverki, leit- og björgun og sjúkraflugi. Jafnfamt er mikilvægt að góð astaða fyrir kennslu- og þjálfunarflugs séu á líkum flugvelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert