Kæra fyrrverandi forstjóra United Silicon

Hremmingar United Silicon hafa undið upp á sig.
Hremmingar United Silicon hafa undið upp á sig. mbl.is/RAX

Stjórn United Silicon hefur í samráði við lögmann félagsins og aðstoðarmann í greiðslustöðvun sent kæru til embættis héraðssaksóknara um mögulega refsiverða háttsemi fyrrverandi forstjóra og stofnanda United Silicon. Samkvæmt heimildum mbl.is nær hin meinta refsiverða háttsemi til upphæða sem hlaupa á hundruðum milljóna.

Í tilkynningu kemur fram að kæran byggi á grun um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014 og er lögð fram í samráði við aðra hagsmunaaðila. Upplýsingarnar sem nú koma fram eru afrakstur af vinnu við endurskipulagningu félagsins sem leidd hefur verið af nýrri stjórn sem tók við í febrúar.

Hinn grunaði hefur enga aðkomu haft að rekstri eða stjórnun félagsins síðan í mars. Stjórn félagsins mun vinna með yfirvöldum að rannsókn málsins svo að upplýsa megi það sem fyrst.

Farið hefur verið yfir málið með starfsmönnum United Silicon og þeim greint frá stöðunni.

Þegar mbl.is ræddi við Helga Jóhannesson, hæsta­rétt­ar­lögmann og aðstoðarmaðnn fyr­ir­tæk­is­ins á greiðslu­stöðvun­ar­tím­an­um, í dag sagði hann að KPMG hafi verið ráðið til að fara yfir fjár­hags­lega þætti fyr­ir­tæk­is­ins í framtíð og fortíð, LEX lög­manns­stofa yf­ir­fari samn­inga og norskt fyr­ir­tæki hafi verið ráðið til að sjá um tækni­leg­ar hliðar.

Karen Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi United Silicon, sagði í samtali við mbl.is að vísbendingar um hina meintu refsiverðu háttsemi hefðu komið í ljós við umfangsmikla vinnu nýrrar stjórnar sem nú vinnur að endurskipulagningu félagsins til að ná yfirsýn yfir starfsemi þess. Karen gat ekki upplýst frekar um málið að svo stöddu en segir að United Silicon muni upplýsa um málið þegar lengra líður og málið skýrist frekar. Ákveðið hafi verið að upplýsa um kæruna núna til að starfsmenn félagsins myndu ekki frétta af málinu annars staðar frá, enda hafa þeir verið undir miklu álagi undanfarið.  

mbl.is