„Samfélagið er gjörsamlega á hliðinni“

Axel Þór Ásþórsson, til hægri, ásamt Grétu Maríu og Birki …
Axel Þór Ásþórsson, til hægri, ásamt Grétu Maríu og Birki Snæ. Þau upplifðu fellibylinn á sínu svæði eins og íslenska haustlægð. Ljósmynd/aðsent

„Eftir að við komum út hefur ekkert annað komist að nema þessi fellibylur,“ segir Axel Þór Ásþórsson, Íslendingur sem staddur er í Flórída í Bandaríkjunum. Axel dvelur skammt norðaustur af Tampa á vesturströnd Flórídaskagans. Þar er hann í fríi með fjölskyldu sinni; konu og barni.

Fellibylurinn, sem kostað hefur mörg mannslíf, gekk yfir svæðið snemma í morgun að íslenskum tíma. Hann olli að sögn Axels litlu tjóni á því svæði sem hann er staddur. „Um þrjú eða fjögur í nótt var alveg þögn. Þá vorum við í auga stormisins,“ segir hann í samtali við mbl.is. Síðan hafi vindáttin snúist við frá því sem áður var.

Hans upplifun af fellibylnum, á því svæði sem hann er staddur, er ekki ósvipuð íslenskum haustlægðum. „Fyrir okkur var þetta bara eins og íslensk lægð. Þetta var ekkert öðruvísi en vont veður heima. Enda held ég að það hafi ekkert skemmst hér. Við sluppum eiginlega alveg,“ segir hann.

Taugatrekkjandi bið

Axel segir að biðin eftir fellibylnum hafi verið verst. Þau hafi séð fréttir um fellibylinn á Karíbahafi, um það leiti sem þau voru að fara af stað í ferðalagið, en þegar þau hafi lent hafi tekið við löng bið eftir því sem verða vildi. Gífurlegur viðbúnaður hafi farið í gang og samfélagið hafi verið „gjörsamlega undirlagt“ fellibylnum. Ekkert annað hafi komist að.

„Maður fylgdist með veðurfréttunum allan sólarhringinn og spárnar voru síbreytilegar. Fyrst um sinn leit þetta ágætlega út hjá okkur og því var spáð að hann færi upp með austurströndinni. Þá var maður þokkalega rólegur,“ segir hann. Hver ný spá hafi hins vegar gefið til kynna að þetta yrði verra. „Í hverri nýrri spá varð þetta svartara og svartara. Svörtustu spárnar gerðu ráð fyrir að fellibylurinn hitti beint á Tampa.“

Gífurlegt eignatjón hefur orðið sums staðar á Flórídaskaga. Hér veður …
Gífurlegt eignatjón hefur orðið sums staðar á Flórídaskaga. Hér veður maður um götur í Bonita Springs í Flórída. AFP

Hann segir hafa panikkað eitt kvöldið þegar hann var að skoða veðurspá. Á vefnum windy.com hafi hann rekið augun í að vindurinn ætti að verða 70-100 metrar á sekúndu, þegar raunin var sú að um kílómetra á klukkustund var að ræða. Við hafi tekið erfitt kvöld og nótt þar sem hann reyndi að koma konunni sinni í skilning um það sem hann taldi að væri í vændum. „Ég varð mjög órólegur. Ég var byrjaður að skoða húsið og kalla eftir upplýsingum um burðarþol hússins. Ég var farinn að reyna að finna út hvar við gætum legið til að vera í skjóli og ég veit ekki hvað,“ segir hann við mbl.is.

Morguninn eftir rann upp fyrir honum að hann hafði lesið skakkt í kortin og eftir það var hann rólegur.

Hættan er ekki liðin hjá

Þegar mbl.is ræddi við Axel var enn rafmagnslaust eftir átök næturinnar, en fregnir herma að um 60% íbúa fylkisins séu án rafmagns. Axel segir að þó fellibylurinn sé í rénun sé hættan ekki liðin hjá. Skýstrókar gætu myndast með skömmum fyrirvara auk þess sem gert er ráð fyrir að sjórinn, sem fellibylurinn sogaði frá ströndinni, komi til baka í dag. Við það gætu myndast flóð í Tampa.

Fellibylurinn sogaði sjóinn frá ströndu á vesturströnd Flórídaskaga. Búist er …
Fellibylurinn sogaði sjóinn frá ströndu á vesturströnd Flórídaskaga. Búist er við að sjórinn skili sér til baka í dag, en þá gæti flætt. AFP

Hann segir að ferðin hafi vissulega verið frábrugðin því sem til stóð. „Maður fer í sólarlandafrí til að hafa gaman. Við ætluðum í vatnsrennibrautargarða og tívolí. En frá því við lentum til dagsins í dag er þetta búið að snúast um að fylgjast með veðurfréttum. Samfélagið er gjörsamlega á hliðinni. Þetta er búin að vera svakaleg óvissa.“

Axel, sem hefur ekki komið til Flórída áður, segir að hann muni ekki velja septembermánuð aftur til ferðalaga á þessar slóðir. Þetta sé ekki góð lífsreynsla.

Meira en 30 látnir

Fellibylurinn Irma er nú flokkaður sem fyrsta stigs fellibylur. Þó íbúar í nágrenni við Tampa hafi sloppið vel frá fellibylnum er ekki sömu sögu að segja sunnar á skaganum. Í það minnsta fjórir eru látnir á Flódídaskaga og eignartjónið er gífurlegt. Í fylkinu eru 5,7 milljónir manna án rafmagns. Þá kostaði bylurinn 28 manns, hið minnsta, lífið á ferð sinni um eyjar Karíbahafsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert