13,5 milljarða aukning til heilbrigðismála

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framlög til byggingar nýs Landspítala verða aukin um 1,5 milljarða króna á næsta ári umfram það sem ráðgert var í fjármálaáætlun ríkisins. Í heild aukast heilbrigðisútgjöld um 6,9% milli ára. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Velferðarráðuenytinu í tengslum við fjár­laga­frum­varp sem fjár­málaráðherra kynnti nú í morg­un. 

Heildarútgjöld til heilbrigðismála árið 2018 verða tæpir 208 milljarðar króna sem er 13,5 milljarða króna aukning frá fyrra ári eða 6,9%. Af því renna tæpir 2,8 milljarðar króna til Nýs Landspítala á næsta ári sem er hækkun um tæpa 1,3 milljarða frá fjárlögum þessa árs.

Framkvæmdir hefjast við byggingu meðferðarkjarna sjúkrahússins við Hringbraut árið 2018 og er fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans sögð komin vel á veg. Þá er í undirbúningi útboð á fullnaðarhönnun rannsóknarhúss Nýs Landspítala.

850 milljónir til styttingar biðlista

Aukið fé verður veitt til að efla teymisvinnu á sjúkrahúsum, auka samvinnu við heilbrigðisstofnanir og bæta þjónustu. þjónustunnar. Framlag til þessa verkefnis verður 70 milljónir á næsta ári og eykst ár frá ári til ársins 2022 þegar miðað er við að árleg viðbótaraukning nemi tæpum einum milljarði króna. Framlag til átaks um styttingu biðlista verður 850 milljónir króna á næsta ári en það hófst árið 2016. 

Áfram verður haldið átaki í viðhaldi á eldra húsnæði Landspítalans með áherslu á að bregðast við mygluvanda. Á þessu ári var veitt einum milljarði króna til viðhaldsverkefna. Á næsta ári verður 400 milljónum króna varið til átaksins.

200 milljónir í rekstur skannans

Þá kemur fram að rekstur jáeindaskanna á Landspítala hefjist á næsta ári og gert sé ráð fyrir að töluverðar fjárhæðir sparist með betri greiningu sjúklinga og markvissari læknismeðferð. Á næsta ári renni 200 milljónir króna til reksturs skannans en áætlað sé að árið 2019 verði 300 milljónum varið í rekstur hans þegar áformað er að jáeindaskanninn verði kominn í fulla notkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert