Bjartsýnn þrátt fyrir lausa kjarasamninga

Benedikt Jóhannsson fjármálaráðherra á fundinum í morgun.
Benedikt Jóhannsson fjármálaráðherra á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir að talsverð spenna ríki nú á vinnumarkaði þar sem fjöldi samninga er opinn segist Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra vera bjartsýnn á að samningarnir muni ekki hafa mikil áhrif á þau fjárlög sem kynnt voru í dag. Lagði Benedikt talsverða áherslu á að halda þyrfti áherslu í ríkisrekstri meðan þensluástand væri eins og í dag. Þannig sagði hann mikilvægt að varðveita kaupmátt launa með sátt á vinnumarkaði og vísaði til þess að koma í veg fyrir svokallað höfrungahlaup.

Benedikt sagði að við gerð fjárlaganna væri stuðst við fjögur hagstjórnarmarkmið.

  • Aðhald í ríkisrekstri á meðan þensla er mikil
  • Varðveita kaupmátt launa með sátt á vinnumarkaði
  • Stuðla að stöðugleika í gengismálum
  • Tryggja og efla opinbera þjónustu og innviði

Í dag eru samningar við félög BHM opnir og þá opnast samningar kennara í haust. Þá komust mörg aðildarfélög á almenna markaðinum að þeirri niðurstöðu í vetur að forsendur kjarasamninga væru brostnar, en að aðgerðum yrði frestað í eitt ár, eða þangað til eftir komandi áramót.

Nýlega sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ að sambandið myndi ekki lengur miða við stöðuna í hagkerfinu við kröfugerð í kjarasamningum heldur við þá launahækkun sem kjararáð hefði lagt línurnar með. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra svaraði því til að hann teldi hótanir sem þessar slæmt upphaf kjaraviðræðna.

Spurður út í hvort hann telji þessi markmið haldast og þar með áætlun fjárlaga miðað við stöðuna á vinnumarkaðinum segist Benedikt svo vera.  „Ég er bjartsýnismaður og ég vona að það haldist. Það verður að vera markmið okkar að viðhalda þessu, því það tapa allir ef við veikjum kaupmátt. Það væri mjög slæmt ef við færum aftur í það ástand,“ segir hann.

Benedikt segir að hann skilji ekki þá gagnrýni sem Gylfi setti fram og nefnd var hér að ofan. „Kaupmáttur hefur almennt hækkað um 25% á rúmlega þremur árum og það þýðir að menn eru í raun með 25% meiri tekjur og það er árangur sem við höfum náð sameiginlega,“ segir Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert