Flestir jákvæðir í garð ferðamanna

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Mikill meirihluti íbúa höfuðborgarsvæðisins er jákvæður gagnvart ferðamönnum samkvæmt skoðanakönnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Höfuðborgarstofu og fór fram dagana 12. apríl til 9. júní eða níu af hverjum tíu íbúum. Alls svöruðu 1.860 manns.

„Könnunin leiðir í ljós að níu af hverjum tíu íbúum á höfuðborgarsvæðinu eru ýmist í meðallagi, frekar eða mjög jákvæðir gagnvart ferðamönnum. Um níu prósent íbúa segjast fremur eða mjög neikvæð gagnvart þeim. Þetta er örlítil breyting frá síðasta ári þegar sömu hlutföll voru 95% og rúmlega sex prósent sögðust frekar og mjög neikvæð gagnvart ferðamönnum,“ segir í fréttatilkynningu.

Þá telja átta af hverjum tíu íbúum höfuðborgarsvæðisins að aukinn fjöldi ferðamanna hafi jákvæð efnahagsleg áhrif á svæðinu og fleirum finnst lífsgæðin í sínu nærumhverfi hafa batnað en versnað með auknum fjölda ferðamanna eða 20% á móti 10%. „Í miðborginni eru íbúar afdráttarlausari og segir um þriðjungur þeirra að lífsgæði sín hafi batnað og fjórðungur að þau hafi versnað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert