RÚV fær bréfið afhent

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Dómsmálaráðuneytið mun veita RÚV aðgang að bréfi sem Robert Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, sendi ráðuneytinu þar sem hann fór fram á uppreist æru. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál en ráðuneytið hafði áður hafnað beiðni RÚV.

Fram kemur í úrskurðinum að ráðuneytið muni þó ekki birta símanúmer Roberts. Einnig verður veittur aðgangur að bréfi þar sem hann ítrekar beiðni sína um uppreist æru ásamt tilkynningu Fangelsismálastofnunar þar sem honum er tilkynnt um veitingu reynslulausnar. „Þá verður jafnframt veittur aðgangur að þremur vottorðum nafngreindra manna sem lögð voru fram sem fylgigögn með umsókninni.“

Robert starfaði sem lögmaður þegar Hæstiréttur dæmdi hann í þriggja ára fangelsi árið 2008 fyrir að brjóta með kynferðislegum hætti gegn fjórum stúlkum á aldrinum fjórtán og fimmtán ára. Við það missti hann lögmannsréttindi sín. Hæstiréttur ákvað í júní að undangenginni undirskrift forseta Íslands og tillögu innanríkisráðherra, að Roberti skyldi veitt uppreist æra.

Í niðurstöðu úrskurðarins segir:

Dómsmálaráðuneytinu er skylt að veita kæranda aðgang að eftirfarandi gögnum:

1. Umsókn til forseta Íslands, dags. 17. september 2014, um uppreist æru. Þó ber ráðuneytinu að afmá upplýsingar um símanúmer umsækjandans.

2. Bréfi umsækjanda, dags. 8. apríl 2016, þar sem umsókn er ítrekuð. ÞÓ ber ráðuneytinu að afmá upplýsingar um símanúmer og netföng umsækjanda og votta.

3. Vottorðum sem lögð voru fram með umsókninni. Þó ber ráðuneytinu að afmá síðustu efnisgrein vottorðs, dags. 3. september 2014, og þriðju og fjórðu efnisgrein vottorðs, dags. 7. september 2014.

4. Tilkynningu Fangelsismálastofnunar ríkisins til umsækjanda, dags. 7. desember 2010, þar sem tilkynnt er um veitingu reynslulausnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert