Safnað fyrir fjögur systkini sem misstu móður

Vita með dætrum sínum á efri myndunum tveimur þeim Önnu …
Vita með dætrum sínum á efri myndunum tveimur þeim Önnu og Undu. Á þeirri neðri er öll fjölskyldan á brúðkaupsdegi yngri sonar hennar Kristaps og er eldri bróðirinn Kaspars til hægri við hlið eiginkonu sinnar.
Söfnun er hafin fyrir lettnesk systkini sem misstu móður sína nýverið úr hjartaáfalli. Vita Brauna, sem var einstæð, skilur eftir sig fjögur börn, tvo uppkomna pilta og tvær stúlkur, 13 og 16 ára. Þau hafa búið hér á landi í fimm ár og hyggjast ekki flytja aftur til heimalandsins Lettlands. Systkinin eiga enga fjölskyldu að hér á landi og afar og ömmur í Lettlandi eru öll látin. 
„Yngstu dætur okkar eru jafnöldrur og kynntust í Austurbæjarskóla,“ segir Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur sem stendur fyrir söfnuninni fyrir börn vinkonu sinnar. „Þær urðu óaðskiljanlegar vinkonur og ég var rétt nýkomin með þær báðar heim úr sumarfríi á Krít þegar Vita dó. Ég er á því að það sé engin tilviljun og þetta hafi átt að vera svona. Sigrún Ugla, dóttir mín, missti föður sinn fyrir fjórum árum og veit nákvæmlega hvernig það er að ganga í gegnum þann harm sem það er að missa foreldri. Það hefur verið ljúfsárt að sjá hvernig þær veita hvor annarri styrk og huggun í sorginni.“
Systurnar munu eiga framtíðarheimili hjá bræðrum sínum sem eru báðir í sambúð. „Aðstæður eru erfiðar því hvorki eru ættingjar til staðar hér né í Lettlandi sem geta stutt við bakið á þeim um leið og þau eru fara í gegnum þetta mikla áfall að missa móður sína,“ segir Vilborg.  

Lánsöm á Íslandi að kynnast góðu fólki

Í síðasta mánuði reyndi Vilborg að aðstoða Vitu og dætur hennar við að útvega þeim nýtt leiguhúsnæði en Vita lést 31. ágúst, daginn sem hún átti að flytja út. Viku fyrir andlátið sagði Vita við Vilborgu að hún væri viss um að hún myndi finna húsnæði þótt ekkert væri í augsýn. „Þetta leysist allt á endanum," sagði hún og hló. ,,Ég hef verið svo lánsöm frá því að ég kom til Íslands og kynnst svo góðu fólki. Og ég á svo frábær börn.“ 
Útför Vitu var gerð í gær og er bálförin í dag. Jarðneskar leifar hennar verða jarðsettar á tveimur stöðum, í duftreitnum Sóllandi í Fossvogi og í heimaborg hennar í Lettlandi við hlið móður sinnar. Systkinin fara til Lettlands á sunnudaginn næsta í þeim erindagjörðum.

Opnaður hefur verið reikningur til styrktar systkinunum á kennitölu 160101-4740 og bankanr. 0513-14-401737

 

 

Vilborg Davíðsdóttir
Vilborg Davíðsdóttir Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert