Útlit fyrir flug til Miami á morgun

Útlit er fyrir að WOW air muni fljúga á ný …
Útlit er fyrir að WOW air muni fljúga á ný frá Miami á morgun.

Útlit er fyrir að WOW air muni hefja flug aftur til Miami á Flórída á morgun. Þetta segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air. Fréttir hafi borist frá Miami International Airport flugvellinum um að allt stefni í að hann verði opnaður að nýju fyrir umferð í dag.

„Eins og þetta lítur út núna þá er líklegt að við munum fara flugið á morgun. Við erum bara að bíða eftir staðfestingu frá flugvellinum um að búið sé að opna hann, en það ætti að gerast í dag,“ segir Svanhvít. Búið var að aflýsa flugi WOW til Miami í dag og var farþegum á vefsíðu flugfélagsins bent á að fylgjast vel með gangi mála næstu daga.

Svanhvít segir vel hafa gengið að greiða úr málum þeirra farþega sem áttu bókað flug til og frá Miami á meðan að flug hefur legið niðri.

„Sumir eru frá Miami og fengu endurgreitt,“ segir hún. Fólk gat fengið endurgreitt, frestað flugi eða fengið flug frá öðrum áfangastað.“ Svanhvít segir einhvern fjölda manna  hafa nýtt sér áfangastaði WOW air á austurströndinni. „Síðan voru einhverjir sem vildu fara síðar, þannig að það hefur í raun gengið alveg ótrúlega vel að greiða úr þessu,“ segir hún og kveður því ekki útlit fyrir að flöskuháls þegar flug hefst á ný.

Ekki hefur náðst í upplýsingafulltrúa Icelandair til að kanna hvenær flug hefjist að nýju frá flugvellinum í Tampa.

Uppfært klukkan 15:57

Flugvöllurinn í Miami hefur verið opnaður. Wow mun því fljúga þangað í fyrramálið. Búið er upplýsa farþega um það, að því er segir í athugasemd frá Wow air.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert