16,9 milljarðar til umhverfismála

Útgjöld til umhverfismála munu nema 16,9 milljörðurm króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi …
Útgjöld til umhverfismála munu nema 16,9 milljörðurm króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heildarútgjöld ríkisins til umhverfismála árið 2018 verða 16.925 milljónir króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi í gær og hækka um 1.328 milljónir frá gildandi fjárlögum. Fjárheimildir til náttúruverndar, skógræktar og landgræðslu hækka um 120 milljónir og fjárheimild til málaflokksins meðhöndlun úrgangs hækkar um 730 milljónir frá gildandi fjárlögum. 

Í málaflokknum meðhöndlun úrgangs munar mestu um 488 milljóna króna aukningu í framlagi til Endurvinnslunnar ehf. í tengslum við áætlun um aukningu í skila- og umsýslugjaldi frá fyrra ári en framlög til Úrvinnslusjóðs aukast jafnframt um 242 milljónir króna. Heildarútgjöld vegna varna gegn náttúruvá lækka um 6,3 milljónir króna vegna hagræðingarkröfu. 

Í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir varanlegri fjármögnun stjórnunar vatnamála sem er ætlað að stuðla að sjálfbærri nýting vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. 

Framlög til Endurvinnslunnar ehf. aukast um 488 milljónir í tengslum …
Framlög til Endurvinnslunnar ehf. aukast um 488 milljónir í tengslum við áætlun um aukningu í skila- og umsýslugjaldi. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Aðgerðaráætlun í loftslagsáætlun í vinnslu

Áætlað er að aðgerðaráætlun í loftslagsáætlun verði tilbúin til kynningar í upphafi árs 2018 en í áætluninni verða tímasettar og mælanlegar aðgerðir. Þannig munu tekjur og gjöld vegna nýrra loftlagsaðgerða dreifast á mörg ráðuneyti. 

Í haust verður lögð fram þingsályktunartillaga um tólf ára stefnumarkandi landsáætlun til verndar íslenskum náttúruperlum og menningarsögulegum minjum. Á grunni landsáætlunar er lögð fram verkefna áætlun til þriggja ára og í fjárlagafrumvarpi er stigið fyrsta skrefið í fjármögnun hennar. 

Áhersla á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda

Á næstu misserum verður lögð áhersla á að efla stjórnsýslu og stefnumótum um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda landsins. Á næsta ári er gert ráð fyrir að leggja fram samræmt yfirlit yfir náttúruauðlindir landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert