Dagbjartur sækist eftir endurkjöri

Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson, formaður Ungliðahreyfingar Viðreisnar.
Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson, formaður Ungliðahreyfingar Viðreisnar. Ljósmynd/Aðsend

Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson, lögfræðingur og formaður ungliðahreyfingar Viðreisnar, mun gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku í Ungliðahreyfingu Viðreisnar á aðalfundi hreyfingarinnar sem fer fram föstudaginn 23. september næstkomandi. 

„Síðastliðið ár hefur verið frábært. Það hefur verið lærdómsríkt að taka þátt í uppbyggingu ungliðahreyfingar og ég hef fengið tækifæri til að vinna með einstöku fólki. Það væri mér mikill heiður njóta trausts til að gegna hlutverki formanns Ungliðahreyfingar Viðreisnar annað ár,“ segir Dagbjartur Gunnar í tilkynningu sem hann sendi frá sér vegna framboðs síns.

Hann segir það mikilvægt að tryggja röddum ungs fólks hljómgrunn, bæði í stefnumótun flokksins og í stjórnmálaumræðunni á landsvísu. „Að mínu mati hefur það tekist vel en eins og með margt annað er um viðvarandi verkefni að ræða, sem þarf að hafa í fyrirrúmi öllum stundum.“

Dagbjartur Gunnar lauk meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2016. Meðan á náminu stóð var hann meðal annars varaformaður Orators, félags laganema við HÍ, og tók þátt fyrir Íslands hönd í alþjóðlegru málflutningskeppninni White & Case: Philip C. Jessup International Law Moot Court Competition.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert