Ekki tekið á uppsöfnuðum vanda

Hreinn Haraldsson er vegamálastjóri.
Hreinn Haraldsson er vegamálastjóri. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Það er ofboðslega margt ógert, ekki síst í ljósi þess sem menn samþykktu í samgönguáætlun í október í fyrra,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri. Framlög til vegamála í nýju fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 eru á pari við það sem kynnt var í fjármálaáætlun í vor. Heildarframlag til samgöngumála verður um 34 milljarðar króna á næsta ári.

Um er að ræða svipaða upphæð og varið var til samgöngumála á þessu ári en við afgreiðslu fjárlaga þessa árs hækkuðu framlög til samgöngumála um 4,5 milljarða króna. Í samtali við Hrein má heyra að hann er ekki nema mátulega ánægður með þá upphæð sem eyrnamerkt er samgöngum í frumvarpinu. „Þetta er sama rullan og kemur ekkert á óvart. Þetta eru sömu tölur og kynntar voru í fjármálaáætlun í vor.“

Þurfa 9 til 10 milljarða í endurbætur

Hreinn segir að Vegagerðin hafi lagt mikla áherslu á að fá aukið fé til viðhalds og endurbóta á vegakerfinu. „Samkvæmt þessu er miðað við sömu upphæð og er í ár. Upphæðin hækkaði reyndar frá árinu 2016 og það er jákvætt að hún fari allavega ekki niður aftur.“

Átta milljörðum króna verður varið til viðhalds á vegakerfinu 2018, eins og á þessu ári. „Við höfum verið með óskir um níu til tíu milljarða til að vinna hraðar á því sem fór úrskeiðis á árunum eftir hrun,“ segir Hreinn. Hann segir að þessi upphæð nægi ekki til að vinna á þeim uppsafnaða vanda. Víða í vegakerfinu, sérstaklega á stofnleiðum, sé mjög stutt í að ráðast þurfi í endurnýjun slitlags og burðarlags.

65 milljarða uppsöfnuð þörf

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er uppsöfnuð þörf fyrir viðhald slitlaga um 15 milljarðar króna. Uppsafnaður vandi sem tengist styrkingum og endurbótum er áætlaður um 50 milljarðar. Til viðbótar þessu er mikil þörf á endurnýjun brúa en 712 einbreiðar brýr eru í vegakerfinu. Helmingur brúa á Íslandi er 50 ára og eldri.

Í frumvarpinu kemur fram að umfangsmestu verkefnin sem ráðist verður í á næsta ári séu Dýrafjarðargöng, nýr kafli á Hringveginum í Berufjarðarbotni, kafli á Reykjavegi milli Biskupstungnabrautar og Laugarvatnsvegar auk smíði Vestmannaeyjaferju. Einnig segir að framlag til þjónustu á vegakerfinu hækki um 133 milljónir króna en það fé verður að mestu nýtt til að bæta vegmerkingar.

Nægir rétt til að halda í horfinu

Hreinn bendir á að vegna þess aukna fé fékkst til viðhaldsaðgerða á þessu ári hafi Vegagerðinni borist fleiri kvartanir en venjulega um umferðartafir vegna framkvæmda. Fólk hafi með öðrum orðum orðið vart við að meira hafi verið hægt að gera. Þetta nægi hins vegar ekki til þeirra endurbóta sem í þarf að ráðast. „Miðað við umferðaraukninguna sem orðið hefur, bæði í atvinnulífinu og vegna ferðamanna, yrði þetta ekki meira en til að halda í horfinu og koma í veg fyrir frekara slit.“

Hann segir að mjög aðkallandi sé orðið að breikka og styrkja stofnleiðir í vegakerfinu, eins og Vegagerðin hafi unnið að fyrir hrun. Vegirnir séu of mjóir og of veikir fyrir þessa miklu umferð. Slíkar framkvæmdir verði hins vegar að bíða enn um sinn. Hann viðurkennir að vera frekar súr vegna frumvarpsins. „Maður er vonsvikinn, já, að það skuli ekki vera sett meira fé í málaflokkinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert