Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækki í 520 þúsund

Fjárheimild fæðingarorlofssjóðs er aukin um 739 til að mæta hækkun …
Fjárheimild fæðingarorlofssjóðs er aukin um 739 til að mæta hækkun á hámarksgreiðslum

Fyrsta skrefið í áætlun um hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði verðru tekið um áramótin samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2018 sem lagt var fyrir Alþingi í gær. Stefnt er að því að breyta reglugerð þannig að mánaðarlegar hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækki í 520 þúsund krónur á næsta ári en í dag er hámarksgreiðsla í fæðingarorlofi 500 þúsund krónur. Hækkunin er í samræmi við áætlun í ríkisfjármálum sem miðast við að hámarksgreiðslurnar verði komnar í 600 þúsund krónur á mánuði árið 2020.  

Heildarfjárheimild til málaflokksins fæðingarorlof fyrir árið 2018 er áætluð rúmlega 11,5 milljarðar krónur og hækkar um rúman milljarð frá gildandi fjárlögum. 

Áhersla er lögð á að hækka hámarksgreiðslur úr Fæðignarorlofssjóð til að styðja betur við barnafjölskyldur og draga úr tekjumissi fjölskyldna þegar foreldrar nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Verður það gert í áföngum fram til ársins 2020 þannig að hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi fari úr 500 þúsund krónum í 600 þúsund krónur. Fyrsti áfanginn tekur gildi 1. janúar næstkomandi þegar mánaðarleg hámarksgreiðsla hækkar í 520 þúsund krónur vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2018. 

Frumvarp lagt fram á vorþingi

Félags- og jafnréttismálaráðherra áformar að leggja fram frumvarp á vorþingi 2018 þar sem síðari áfangar hækkunar fæðingarorlofs verða lögfestir. Er horft til þess að fólk hafi hag af því að sjá fyrir réttindi sín til fæðingarorlofs. Þannig geti fyrirliggjandi upplýsingar um hækkun hámarksgreiðslna orðið fólki hvati til frekari barneigna og einnig ýtt undir að foreldrar fullnýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Nokkur misbrestur hefur verið á því á liðnum árum í kjölfar þess að greiðslur í fæðingarorlofi voru lækkaðar en það dró verulega úr töku fæðingarorlofs feðra. 

Stórt jafnréttismál

Hlutfall feðra sem tóku styttra fæðingarorlof en þrjá mánuði var á árunum 2004 - 2006 um 19%. Til samanburðar var þetta hlutfall komið í um 34% árið 2014 og benda gögn til þess að hlutfallið verði svipað fyrir árin 2015 og 2016. 

Félags- og jafnréttismálaráðherra áformar að leggja fram frumvarp á vorþingi …
Félags- og jafnréttismálaráðherra áformar að leggja fram frumvarp á vorþingi 2018 þar sem síðari áfangar hækkunar fæðingarorlofs verða lögfestir Ljósmynd/Aðsend

„Það er í mínum huga stórt jafnréttismál að ná til feðranna þannig að þeir nýti vel rétt sinn til fæðingarorlofs og helst að fullu. Markmið laganna er að börnin geti notið samvista við foreldra sína á fyrstu mánuðum lífs síns. Það er bæði mikilvægt að tryggja börnunum þennan rétt en þetta er líka mjög mikilvægt fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði,“ er haft eftir Þorsteini Víglundssyni félags- og jafnréttismálaráðherra í frétt á vef Velferðarráðuneytisins. 

Auknar fjárheimildir

Fjárheimild fæðingarorlofssjóðs er aukin um 739 milljónir króna til hækkunar á hámarksgreiðslu til foreldra í fæðingarorlofi en áætlað er að sjóðurinn fái jafnframt 453 milljónir, annars vegar til að mæta áhrifum kjarasamninga frá árinu 2015 og hins vegar vegna viðbótarútgjalda sem leiða af hækkun mótframlags í lífeyrissjóð í 11,5% frá miðju ári 2018. Þá er gert ráð fyrir að útgjöld sjóðsins verði lækkuð um 17.7 milljónir í samræmi við aðhaldsmarkmið sem ríkisstjórnin hefur sett í áætlun um fjármál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert