Gengu með hreindýrum í Lapplandi

Á toppnum. Helga lengst til hægri með íslenska fánann á …
Á toppnum. Helga lengst til hægri með íslenska fánann á toppi fjallsins Halti í Lapplandi. Ljósmynd/Maren Krings

Þau vilja vekja athygli á náttúru Norðurlandanna og settu því af stað verkefni um að ganga á fimm hæstu fjöll Norðurlandanna, utan jökla. Þau byrjuðu á að ganga á Halti í Lapplandi og báru með sér risastórt fornt hljóðfæri til að blása kveðju. Þau gistu í frumstæðum kofum með engu rennandi vatni og útikömrum.

Þetta var mjög frumstætt og skemmtilegt og maður kemur á einhvern hátt betri manneskja úr svona ferðalagi. Maður lærir að umgangast náttúruna með virðingu, sem veitir ekki af í neyslubrjálæði nútímans. Við gengum um tuttugu kílómetra á dag á milli kofa sem eru algjörlega sjálfbærir, enginn sér um þá svo gestir á göngu taka fulla ábyrgð á öllu. Ekkert rennandi vatn er í kofunum svo við þurftum að sækja vatn út í nærliggjandi læki, og við kofana eru útikamrar sem fólk setur trjávið yfir þegar það hefur gert þarfir sínar. Fólki ber skylda til að höggva eldivið þegar það yfirgefur kofana, svo næstu gestir hafi nægan eldivið. Við þurftum að taka allt rusl með okkur til baka og við bárum líka allan mat með okkur, tjöld, dýnur og svefnpoka, en þetta er mjög afskekkt og engir vegir fyrir trússbíl. Þetta er mjög norðarlega og ekkert ósvipað íslenskri náttúru, fyrir utan hreindýrin sem mikið er af á þessum slóðum. Þau gengu með okkur,“ segir Helga Viðarsdóttir sem gekk á fjallið Halti í Lapplandi í sumar ásamt sex félögum sínum.

Bændur notuðu alphorn til að hafa samskipti sín á milli

Táknrænn gjörningur. Hér tekur einn úr hópnum að sér að …
Táknrænn gjörningur. Hér tekur einn úr hópnum að sér að blása í alpahorn, fornt hljóðfæri sem þau báru með sér upp á fjallstindinn. Ljósmynd/Maren Krings


„Við tókum með okkur fornt blásturshljóðfæri, alpahorn, sem bændur notuðu í Ölpunum í Austurríki hér áður fyrr til að hafa samskipti sín á milli þar sem miklar vegalengdir skildu að. Alpahorn er risastórt hljóðfæri svo við skiptum því niður í bakpokana okkar og bárum það alla leið upp á topp, þar sem við blésum svo kveðju yfir hin Norðurlöndin. Það er hægara sagt en gert að blása í alpahorn, en við æfðum okkur á leiðinni og fyrir vikið fannst Finnunum sem við mættum við vera svolítið klikkuð. En þetta gaf ferðinni sérstakan tón og sýnir ákveðna samstöðu; að við getum farið saman hópur af fólki sem þekkist lítið og borið þetta hljóðfæri saman alla leið upp. Það var sérstök og táknræn tilfinning að blása svo öll í það á toppnum.“

Helga segir að þau hafi ákveðið að ganga á Halti af því Finnland fagnar nú 100 ára sjálfstæðisafmæli.

„Það er svo sérstakt að síðustu metrarnir á hæsta tindi Halte tilheyra Noregi. Ég veit að það var til umræðu í norska þinginu að gefa Finnlandi þessa metra í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis þeirra, en það reyndist of flókið og fór ekki í gegn.“

Næst verður það hið íslenska Snæfell, á lýðveldisafmælinu

Hér reima þau á sig gönguskó utan við einn af …
Hér reima þau á sig gönguskó utan við einn af kofunum frumstæðu. Ljósmynd/Maren Krings


Helga segir að þau sjö sem gengu upp á Halti hafi verið af fimm þjóðernum og hún hafi verið eini Íslendingurinn og eini Norðurlandabúinn. „Við erum hluti af hópi sem setti af stað verkefni um að ganga á fimm hæstu fjöll Norðurlandanna, utan jökla. Þetta er fólk sem hefur unnið mikið í útivistargeiranum, blaðamenn, ljósmyndarar og fólk sem starfar í ferðamennsku. Þetta er í raun gæluverkefni Þjóðverjans Matthias Assmanns, hann setti þetta af stað af því honum finnst vanta athygli á þennan hluta Evrópu, Norðurlöndin.

Við viljum vekja athygli á náttúru Norðurlandanna, við eigum falleg fjöll og háa tinda og margar áhugaverðar gönguleiðir. Himmelbjerget er ekki nema 147 metra hátt, en engu að síður hæsta fjall eða hóll í Danmörku. Þó svo að Danmörk hafi ekki verið þekkt sem útivistarland er fjöldi fallegra staða þar sem vert er að skoða. Við eigum að líta okkur nær, þá er einfaldara að fara af stað og fyrir vini og vandamenn að slást í för. Hvers vegna ekki að setja sér það markmið að ganga á hæstu fjöll Norðurlandanna frekar en fara í Alpana?“ spyr Helga og bætir við að hópurinn hennar ætli að ganga eitt fjall á ári og næst verði það hið íslenska Snæfell. „Okkur finnst það vel við hæfi þar sem við Íslendingar fögnum 100 ára lýðveldisafmæli á næsta ári.“

Þau hafa sett upp vefsíðu, scandinaviansummits.com, sem auðveldar fólki aðgengi að þessum fimm hæstu tindum Norðurlandanna, þar er kort af svæðinu og upplýsingar um gönguleiðir, mögulega gistingu og fleira gagnlegt.

Hæstu fjöllin fimm á Norðurlöndum (utan jökla): Halti í Finnlandi (1.365 m), Snæfell á Íslandi, (1.833 m), Galdhöpiggen í Noregi (2.469 m), Kebnekaise í Svíþjóð (2.111 m) og Himmelbjerget í Danmörku (147 m).
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert