Konan opnaði fyrir ræningjunum

Rannsóknarögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins.
Rannsóknarögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins. mbl.is/Golli

Eldri kona sem varð fyrir líkamsárás á heimili sínu síðdegis á mánudag hleypti árásarmönnunum inn í fjölbýlishúsið þar sem hún býr og opnaði dyrnar á íbúðinni sinni fyrir þeim. 

Dyrabjöllunni var hringt í íbúð hennar og hleypti hún mönnunum inn í sameign fjölbýlishússins. Eftir það opnaði hún dyrnar á íbúðinni sinni fyrir þeim.

Mjög slæm í baki 

Konan, sem er á sjötugsaldri, er mjög slæm í baki eftir árásina en hún fékk högg á höfuðið. Að sögn Aðalsteins Arnar Aðalsteinssonar, rannsóknarlögreglumanns, var barefli ekki notað við árásina. Rannsókn málsins er enn á frumstigi.

Hann segir að mennirnir tveir hafi ætlað að fara inn á þetta tiltekna heimili í leit að verðmætum og að leiðangurinn hafi því ekki verið tilviljunarkenndur.

Mennirnir tveir stálu talsverðu magni af skartgripum af heimili konunnar og stendur leit lögreglunnar að mönnunum og skartgripunum enn yfir. Engin myndavél er í fjölbýlishúsinu og náðust þeir því ekki á mynd.

Lögrelgan hefur óskað eftir aðstoð almennings við að varpa ljósi …
Lögrelgan hefur óskað eftir aðstoð almennings við að varpa ljósi á málið. mbl.is/Hjörtur

Fólki ekki hleypt blákalt inn

„Lögreglan vill beina því til fólks að það hafi í huga áður en fólki er hleypt blákalt inn á heimili að kanna fyrst hver það er til að fá frekari upplýsingar,” segir Aðalsteinn Örn.

„Lögreglan lítur alltaf mjög alvarlega á svona mál, sérstaklega þegar verið er að ráðast á eldra fólk. Það er ekki litið léttvægt á slíkt í okkar húsum.”

Með varann á gagnvart skartgripum

Aðalsteinn biður fólk um að hafa varann á gagnvart skartgripum sem það kaupir, hvort það sé mögulega að taka við þýfi. Hvetur hann fólk til að hafa samband við lögregluna ef grunur leikur á um að eitthvað óheiðarlegt sé í gangi.

Lögreglan óskaði eftir aðstoð almennings við að varpa ljósi á málið en það hefur ekki borið árangur, enn sem komið er.  Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um málið er bent á að hafa samband við lögregluna í gegnum netfangið adalsteinna@lrh.is, einkaskilaboð á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í gegnum símann 444-1000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert