Leðurgalli meira traustvekjandi en hjólabuxur

Meðlimir BACA á Íslandi fengu bakmerki sín fyrir tæplega einu …
Meðlimir BACA á Íslandi fengu bakmerki sín fyrir tæplega einu ári.

Íslandsdeild vélhjólasamtakanna Bikers Against Child Abuse (BACA) hefur verið starfandi í tæpt ár. Markmið samtakanna er að hjálpa börnum sem hafa verið beitt ofbeldi.

Forseti samtakanna, Arn­björn Ara­son, sem gengur alltaf undir nafninu Addi var gestur Hvata og Huldu í Magasíninu á K100. Aðspurður um af hverju vélhjólafólk hjálpaði börnum með þessum hætti, sagði Addi að reynslan sýndi að börn treystu því frekar að fólk í leðurgalla gæti verndað þau en aðrir.

Að vera 'bad-ass biker' hjálpar

Addi sagði þetta ekki snúast um að bæta ímynd vélhjólafólks en meðlimir samtakanna eru svo til að jöfnu hlutfalli karlar og konur. „Það er þessi 'bad-ass biker' í mér sem hjálpar. Ég ætla ekki að ráðast á ákveðna íþróttagrein en hugsum okkur að hjólreiðamenn í spandex-göllum eða golfarar í skónum sínum og köflóttu buxunum kæmu og segðu: Við ætlum að passa þig. Hefði það sömu áhrif eins og 'bikerar' í fullum leðurgalla, tattúveraðir og skeggjaðir,“ sagði Addi og brosti við.

Eyðum ótta barna

Samtökin Bikers Against Child Abuse voru stofnuð í Bandaríkjunum 1995. Fyrir fimm árum hófst undirbúningur að stofnun Íslandsdeilar sem varð að veruleika 26. september á síðasta ári. Addi forseti íslensku samtakanna segir verkefnið vera mjög skýrt og afmarkað. „Við erum til þess að eyða ótta hjá barni þannig að það geti orðið frjáls einstaklingur sem er ekki lengur hræddur við lífið sem það lifir.“ Samtökin aðstoða börn sem hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun, heimilisofbeldi eða annars konar líkamlegu eða andlegu ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert