Leki í Teslu-máli Magnúsar rannsakaður

Magnús Garðarsson, stofnandi United Silicon.
Magnús Garðarsson, stofnandi United Silicon. mbl.is/aðsent

Ritstjóri DV, ábyrgðarmaður DV.is og fyrrverandi blaðamaður blaðsins voru yfirheyrðir í morgun en ríkissaksóknari hefur falið lögreglustjóranum á Vesturlandi að rannsaka upplýsingaleka til DV. Blaðið birti fréttir af meintum hraðakstri Magnúsar Ólafs Garðarssonar, stofnanda United Silicon, en hann höfðaði mál á hendur lögreglustjóranum á Suðurnesjum fyrir upplýsingaleka.

Magnús var fyrr á árinu ákærður fyrir líkamsárás af gáleysi og almannahættubrot. Þá var honum gert að hafa ekið Teslu á 183 kílómetra hraða og hafa valdið slysi.

Kristjón Kormákur Guðjónsson, þáverandi ritstjóri DV og núverandi ritstjóri dv.is staðfestir í samtali við mbl.is að skýrsla hafi verið tekin af honum, Kolbrúnu Bergþórsdóttur ritstjóra DV og Atla Má Gylfasyni, fyrrverandi blaðamanni DV sem skrifaði fréttina um Magnús í vor.

Kristjón segist treysta blaðamönnum sínum en auk þess verði heimildamenn ekki gefnir upp. Hann sagði að það hefði komið á daginn að allt í fréttinni hafi reynst satt og rétt.

Fjallað var um mál Magnúsar í DV í mars þar sem kemur fram að Magnús hafi verið handtekinn í desember á tvöföldum hámarkshraða á Reykjanesbrautinni. Einnig að hann sé grunaður um að hafa með vítaverðum akstri valdið umferðarslysi á tvöföldum kafla Reykjanesbrautarinnar. 

Óvenju greiður aðgangur að upplýsingum

Lögmenn Magnúsar töldu að blaðamaður hefði haft óvenju greiðan aðgang að upplýsingum. Þær hlytu að koma frá lögreglunni á Suðurnesjum, sem rannsakaði málið í fyrstu, eða héraðssaksóknara sem tók við rannsókninni.

Í ákæru máls­ins segir að Magnús hafi tekið fram úr fjölda bíla og minnstu munað að árekst­ur yrði. Við Hvassa­hraun ók hann svo á aft­ur­horn ann­ars bíls þannig að sá bíll hafnaði utan veg­ar. Skallaði ökumaður þess bíls stýrið, missti meðvit­und um stund og hlaut áverka. Sá maður krefst þess að fá eina millj­ón í skaðabæt­ur.

Seg­ir í ákær­unni að Magnús hafi með akstri sín­um stofnað lífi og heilsu hins öku­manns­ins og annarra veg­far­enda í aug­ljós­an háska, en akst­urs­skil­yrði voru ekki mjög góð, blaut ak­braut, hált og slæmt skyggni.

Tesla-bíllinn er í vörslu yfirvalda en saksóknari krafðist þess að hann yrði gerður upptækur vegna ítrekaðra brota Magnúsar. Hann hefur reynt að fá bílinn aftur, án árangurs. 

Stjórn United Silicon kærði Magnús í fyrradag fyrir stórfelld auðgunarbrot og skjalafals. Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is nær hin meinta refsi­verða hátt­semi til upp­hæða sem hlaupa á hundruðum millj­óna. Magnús hafnar því alfarið að hafa dregið að sér fé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert