Opnaði gististað en sótti ekki um leyfi

Heimagisting hefur verið vinsæll valkostur hjá mörgum ferðamönnum. Til að …
Heimagisting hefur verið vinsæll valkostur hjá mörgum ferðamönnum. Til að gististaður geti fallið í þann flokk mega herbergin ekki vera fleiri en fimm. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögreglan á Suðurlandi lokaði í gærmorgun gististað við suðurströndina, en þar fór fram sala á gistingu á nýjum gististað sem hvorki hafði fengið, né sótt um, tilskilin leyfi fyrir rekstrinum. Var tveimur næturgestum sem ekki höfðu yfirgefið staðinn þegar lögregla kom þar að vísað út.

Greint er frá þessu á Facebook-síðu lögreglunnar, sem ekki hitti rekstaraðila fyrir á staðnum og hafði því samband við hann símleiðis í gegnum númer á auglýsingatöflu hússins og hann þannig upplýstur um lokunina.

„Rekstraraðilinn hringdi skömmu síðar og kvaðst ætla að tilkynna gistinguna sem heimagistingu og flytja lögheimili sitt á staðinn til að geta haldið rekstrinum áfram,“ segir í færslu lögreglu sem bendir á að reglugerð um veitinga- og gististaði kveði á um að séu fleiri en fimm herbergi, eða rými fyrir fleiri en 10 einstaklinga leigð út þá teljist gististaðurinn ekki heimagisting.

„Umræddur gististaður er með mun fleiri rými en þarna eru tilgreind og því ekki um það að ræða að fella reksturinn undir heimagistingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert