Sjálfstæðisflokknum veitt of mikil völd

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli

„Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa gefið Sjálfstæðisflokknum allt of mikil völd gegnum tíðina. Í krafti 30 prósent fylgis hefur hann setið í allt of mörgum ríkisstjórnum; þrátt fyrir að 70 prósent þjóðarinnar hugnist hvorki viðhorf hans né stefna,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í ræðu sinni á Alþingi í kvöld, þar sem fara fram umræður um stefnuræðu forsætisráðherra.

Hann sagði samskiptaleysi forsætis- og fjármálaráðherra pínlegt og það liti út fyrir að þeir hefðu ekki talað saman á meðan þeir skrifuðu stefnuræðu og fjárlagafrumvarp. „Einhvern tímann hefði það þótt skynsamlegt, þegar forsætisráðherra semur stefnuræðu á sama tíma og  fjármálaráðherra skrifar fjárlagafrumvarp, að þeir bæru örlítið saman bækur sínar. Það hefur þessum herramönnum þó ekki dottið í hug. Þetta samskiptaleysi þeirra frænda er pínlegt. Á meðan hæstvirtur forsætisráðherra talar um nauðsyn á góðu heilbrigðiskerfi og mikilvægi menntunar,  birtir hæstvirtur fjármálaráðherra metnaðarlítið frumvarp, þar sem hvorugum málaflokknum eru sýndur skilningur.“

Ættum að læra af hinum Norðurlöndunum

Logi sagði ræðu forsætisráðherra jafnframt dapurlegt innlegg í komandi kjaraviðræður, enda væru stéttarfélög og félagsmenn skömmuð fyrir að krefjast kjarabóta. Honum væri nær að læra af hinum Norðurlöndunum þar sem fjárfesting hins opinbera í velferðar- og menntakerfinu, ásamt umbótum í atvinnulífinu væru stór hluti af sátt á vinnumarkaði.

„Þá er ömurlegt að vilji almennings um uppbyggingu á opinberu heilbrigðiskerfi skuli fullkomlega hunsaður. Sú aukning sem þó er boðuð mun lenda í vasa einkaaðila, og grafa enn frekar undan opinberri heilbrigðisþjónustu. Hæstvirtur forsætisráðherra talar um mikilvægi öldrunarþjónustu. Veit hann virkilega ekki að hún er van fjármögnuð um marga milljarða. Sá kostnaður er borinn uppi af nokkrum sveitarfélögum sem þurfa að borga hallann með útsvarstekjum, sem ætlaðar voru í aðra þjónustu. Þetta rýrir samkeppnishæfni þeirra og er óboðlegt. Hæstvirtur forsætisráðherra bítur þó höfuðið af skömminni þegar hann fullyrðir í ræðunni, að það skipti engu máli að skattbyrði hækki mest á lægstu launin. Almenn velsæld hafi nefnilega aukist svo mikið. Skítt með þótt bilið milli þeirra hæst og lægst launuðu breikki.“

Gæti hjálpað við að tína upp brauðmolana

Logi sagði það ágætis hugmynd að forsætisráðherra bankaði upp á hjá þeim nokkur þúsund börnum sem liðu skort á Íslandi, fólki sem hefði hrakist um á ótryggum húsnæðismarkaði, öryrkjum og öldruðum í krappri stöðu. „Hann gæti kannski hjálpað þeim að finna, og tína upp brauðmolana, sem falla af veisluborðinu, sem aldrei fyrr.“

Ísland væri ríkt land og vel væri hægt að bjóða öllum mannsæmandi líf. Það væri hins vegar aðeins gert með klassískum aðferðum líkt og á hinum Norðurlöndunum. „Með því að tryggja öllum öryggi, velferð og menntun og ekki síst skipta gæðum og byrðum réttlátar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert